Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fór fram 2. og 3. júní 2021 í streymi og á Hilton Nordica Hótel.

Þar hittust vísindamenn, sérfræðingar, kennarar, nemendur, fulltrúar fyrirtækja og almenningur og kynntu sér það efsta á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. Það var ókeypis að taka þátt í ráðstefnunni. 

Um 250 rannsóknir á dagskrá

Dagskrá ráðstefnunnar var mjög fjölbreytt og þar voru um 250 rannsóknir kynntar, bæði á íslensku og ensku.

Viðfangsefni rannsóknannana voru af ólíkum toga og úr flestum greinum líf- og heilbrigðisvísinda.

Viðfangsefnin voru allt frá sameindalíffræði og erfðafræði til endurhæfingar, hjarta- og æðasjúkdóma, lyfjagreininga og andlegrar og líkamlegrar heilsu manna á öllum æviskeiðum.

Ágrip allra rannsókna eru aðgengileg á heimasíðunni.

Covid-19 í brennidepli

Nýjustu rannsóknir og niðurstöður tengdar Covid-19 voru í brennidepli á ráðstefnunni.

Þrjár málstofur voru með öllu tileinkaðar faraldrinum og þar var m.a. fjallað um líðan fólks í Covid og Covid-19 og hjúkrun. Tveir spennandi gestafyrirlesarar fjölluðu einnig um Covid-19.

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu fjallaði um bólusetningar og Covid-19.

Örn Almarsson, efnafræðingur og Chief Technology Officer hjá lyfjafyrirtækinu Lyndra, fjallaði m.a.  um þróun Moderna bóluefnisins við Covid-19, en hann tók þátt í þróun þess.

Opnir fyrirlestrar fyrir almenning

Almenningi var boðið til opinna fyrirlestra þar sem fjallað var um spennandi málefni úr líf- og heilbrigðisvísindum á aðgengilegan hátt. 

Kristín Briem, prófessor í sjúkraþjálfun við Læknadeild, fjallaði um orsakir, afleiðingar og forvarnir alvarlegra hnémeiðsla.

Inga B. Árnadóttir, prófessor í tannlæknisfræði við Tannlæknadeild, fjallaði um áhrif orkudrykkja á tannheilsu.

Kennsluhættir framtíðar

Gestamálstofa um umbætur í kennslu og virka kennsluhætti var hluti af dagskrá og þar voru flutt níu áhugaverð erindi.

Dr. Adam Cheng, prófessor í barnalækningum við University of Calgary og sérfræðingur í hermikennslu fjallaði einnig um hermikennslu í heilbrigðisvísindum í sérstökum gestafyrirlestri.

Fjölbreyttar málstofur​

Á dagskrá voru 46 málstofur úr ranni líf- og heilbrigðisvísinda.

Þar var m.a. fjallað um heilsueflingu aldraðra, flugelda, aðgerðir, erfðafræði, andlega líðan, heilsu kvenna, slys og þjálfun, erlendar konur og barneignaferlið, lyfjavísindi, hreyfingu og heilsu barna og ungmenna, lýðheilsu, fjölskylduna og umönnun, málþroska, taugavísindi, aðferðafræði, krabbamein, hjúkrun á heimilum og súrefnismælingar í augum.

Ráðstefna í 20 ár

Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fór fram í 20. sinn í júní 2021. Ráðstefnan hefur fest sig í sessi sem stærsta ráðstefna hér á landi á þessum sviðum.

Í fyrsta inn í sögu ráðstefnunnar fór dagskráin fram í beinu streymi.

Efnilegir vísindamenn verðlaunaðir

Sú hefð hefur skapast að veita efnilegu vísindafólki verðlaun fyrir rannsóknir sínar við slit ráðstefnunnar. Á seinustu ráðstefnu hlutu eftirfarandi fjórir vísindamenn verðlaunin:  

Berglind Soffía Blöndal

Doktorsnemi í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun heilbrigðisráðuneytisins

Guðjón Reykdal Óskarsson

Doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Kristján Godsk Rögnvaldsson

Doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði

Salvör Rafnsdóttir

Doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.