Líf- og heilbrigðis-
vísindaráðstefna
Háskóla Íslands
Hilton Nordica
14. og 15. október 2024
Á dagskrá ráðstefnunnar eru um 200 spennandi rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum. Dagskrá 2024 er hér.
FYRIR HVERJA
Öll sem hafa áhuga á líf- og heilbrigðisvísindum eru velkomin. Bæði innan HÍ og utan. Málstofur eru bæði á ensku og íslensku.

Um ráðstefnuna
Stærst í líf- og heilbrigðisvísindum
Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fer fram á Hilton Nordica 14. og 15. október. Á ráðstefnunni hittist vísindafólk og almenningur og kynnir sér það sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi hverju sinni. Það er ókeypis á ráðstefnuna og hún er opin öllum. Opnir fyrirlestrar í hádeginu eru sérstaklega hugsaðir fyrir almenning og þá er einnig boðið upp á sérstakt málþing fyrir almenning um krabbamein á þriðjudeginum.
Fjölbreytt dagskrá
Um 200 rannsóknir, erindi, veggspjöld, spennandi gestafyrirlestrar og opnir fyrirlestrar fyrir almenning
Á dagskrá eru kynningar á öllu því nýjasta í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. Fjallað verður um spennandi rannsóknir af mörgum fræðasviðum, til dæmis meðgöngu og fæðingu, andlega heilsu, íþróttir, næringu, lyfjafræði, lífvirkni, heilbrigðisþjónustu, sameindalíffræði, ónæmisfræði, erfðafræði og endurhæfingu.
Dæmi um málstofur fyrri ára

Meðganga og fæðing
Viðvarandi opin fósturslagrás hjá fyrirburum, fósturköfnun á Íslandi, áreynsluþvagleki eftir fæðingu, mælingar á blóðsykri hjá nýburum, kynlífstengd vandamál í kjölfar fyrstu fæðingar.

Lífsgæði
Dægurgerð og klukkuþreyta meðal Íslendinga, árangur þverfaglegrar verkjameðferðar með hugrænni atferlismeðferð, millivefslungabreytingar og þættir sem tengjast líkamlegri færni, reynsla íslenskra mæðra sem eru þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku af barneignarferli og móðurhlutverki.

Andleg heilsa
Svefnlyfjanotkun á Íslandi, meðferðarinngrip fyrir fólk með hárreiti- og húðkroppunaráráttu, hvað gerist eftir geðgreiningu, kvíða- og þunglyndiseinkenni meðal háskólanema.

Heilsa barna og unglinga
Heilbrigði unglinga í framhaldsskólum, glerungseyðing meðal íslenskra barna, tengsl stoðkerfisverka ungmenna og vinnu með skóla, yfirlit um algengi ofbeldis gegn börnum á Ísland, háls- og nefkirtlatökur í íslenskum börnum.

Heilbrigðisþjónusta
Sjúkraflutningar nýbura, umfang og eðli óvæntra atvika, ferli ákvarðanatöku um lífslokameðferð, fruflanir á skurðstofum, fjölskyldan í samfloti með heilabilun.

Ónæmis- og sameindalíffræði
Mæði-visnuveira sem líkan fyrir HIV, langvinnir bólgusjúkdómar í meltingarvegi í tengslum við rituximab meðferð, þróun sumarexems í íslenskum hestum, Pontin og Reptin í taugakerfi ávaxtaflugunnar.