Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Þróun örvefjalíkana úr Briskrabbameini og notkun þeirra sem módel fyrir notkun PARP hindra í meðferð

Aðalhöfundur: Sigrún Agatha Árnadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Sameindameinafræði, Meinafræðideild Landspítala, Lífvísindasetur HÍ

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Inga Reynisdóttir, Frumulíffræði, Meinafræðideild Landspítala, Lífvísindasetur HÍ. Rósa Björk Barkardóttir, Sameindameinafræði, Meinafræðideild Landspítala, Lífvísindasetur HÍ. Þórarinn Guðjónsson, Lífvísindasetur HÍ, Læknadeild HÍ. Bylgja Hilmarsdóttir, Sameindameinafræði, Meinafræðideild Landspítala, Lífvísindasetur HÍ.

Inngangur: Briskrabbamein er alvarlegur sjúkdómur þar sem lyfjameðferð hefur takmarkaðan árangur og 5 ára lifun er lág. Því er mikilvægt að bæta, hnitmiða og sérsníða meðferðarúrræði fyrir þennan hóp sjúklinga. Ræktun á krabbameinsfrumum í þrívíðu umhverfi sem öræxli (e. organoids) hefur reynst góð leið til að rækta æxlisvef beint frá sjúklingum við aðstæður þar sem frumurnar viðhalda eiginleikum og svipgerð upprunaæxlisins. Uppsetning frumuræktar in vitro er takmörkunum háð sökum hversu hægur vaxtarhraði krabbameinsfrumna getur verið í þrívíðri rækt.

Markmið: Að þróa aðferð við ræktun öræxla úr briskrabbameini í þrívíðri frumurækt og kanna hvort æðaþelsfrumur í samrækt styðji við og hraði vexti krabbameinsfrumna. Ætlunin er að nýta öræxlin í in vitro lyfjanæmisprófanir á til að auka skilvirkni lyfjameðferða og sem rannsóknarlíkan, t.d. fyrir rannsóknir á myndun lyfjaþols æxlisfrumna.

Aðferðir: Notast var við tvær ólíkar frumulínur til að hafa innbyrðis viðmið, Capan-1 sem ber BRCA2 stökkbreytingu og því næm fyrir PARP hindra og MiaPaca2 sem er ónæm fyrir PARP hindrum. Frumulínur voru ræktaðar ýmist í tvívíðu eða þrívíðu umhverfi í Cultrex geli, með eða án æðaþelsfrumum. Frumuræktir voru meðhöndlaðar með PARP hindra og vöxtur frumna mældur með CellTiter-Glo efnaljómunarmælingu.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að briskrabbameinsfrumulínur í samrækt með æðaþelsfrumum hafa aukinn vaxtarhraða miðað við ræktun krabbameinsfrumulínanna eingöngu. Einnig staðfestu þær að PARP hindri dregur úr vexti Capan-1 en hefur engin áhrif á MiaPaca2.

Ályktun: HUVEC æðaþelsfrumur hafa jákvæð áhrif á vöxt krabbameinsfrumulína með uppruna úr brisi og því forsenda fyrir að prófa þær við uppsetningu á þrívíðri ræktun öræxla úr brisæxlum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.