Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Úr staðnámi í stafrænt umhverfi. Hver er upplifun nemenda?

Aðalhöfundur: Ásta B. Schram
Vinnustaður eða stofnun: Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands.

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Ólöf Júlíusdóttir, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands.

Inngangur: Námskeiðið Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi (1ECTS) hefur verið kennt í staðkennslu sem heilsdagsnámskeið með fyrirlestrum og verkefna-/umræðutímum. Efni námskeiðsins er teymisvinna heilbrigðisstétta, mannréttindi og jafnrétti með áherslu á réttinn til heilsu. Vegna Covid heimsfaraldursins fór síðasta námskeið fram í stafrænu umhverfi. Fyrirlestrar voru teknir upp, verkefni aðlöguð, og leiðbeinendur undirbúnir undir umræðustjórnun og tæknilega útfærslu.

Aðferð: Í lok námskeiðs svara nemendur spurningum sem lýsa upplifun þeirra. Notaður er Likert skali en opinn reitur fyrir athugasemdir. Borin voru saman svör og athugasemdir þátttakenda úr staðnámskeiðinu í janúar 2020 og stafræna námskeiðinu í janúar 2021. Þemagreiningu var beitt fyrir opnu svörin.

Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós að nemendur í stafrænu umhverfi voru ekki síður ánægðir með námskeiðið (98% af 621 ánægðir/mjög ánægðir) en nemendur úr staðnámskeiðinu (97% af 328). Þemagreining sýndi nokkuð svipaðar niðurstöður úr liðnum Best heppnað: Gott skipulag, gagnleg umræða við nemendur úr öðrum heilbrigðisstéttum, og skipulagðir leiðbeinendur, en við bættist: Gagnlegir myndbandsfyrirlestrar, og árangursríkt í netheimum. Ný þemu úr Miður heppnað voru: skammur tími fyrir undirbúningsefni, vantaði glærur, skemmtilegra í staðkennslu, og smávægilegir tækniörðugleikar, en að öðru leyti sömu, s.s. tímasetning námskeiðs, að höfða betur til allra starfsstétta og upplýsingar um uppbyggingu prófs. Farið verður nánar í niðurstöður og hvernig þær leiðbeina með framhaldið.

Ályktanir: Það hefur verið áskorun að útvega nægilegan fjölda stofa fyrir tíu manna umræðuhópa í þessu fjölmenna námskeiði. Miðað við jákvæð viðbrögð nemenda er freistandi er að halda því í stafrænu umhverfi.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.