Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Þrálát þjáning og leiðin til bata. Afleiðingar kynferðisofbeldis fyrir konur og leitin að innri lækningu

Aðalhöfundur: Sigrún Sigurðardóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskólinn á Akureyri

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sigríður Halldórsdóttir, Háskólinn á Akureyri.

Markmið: Að þróa kenningu þar sem dregnar eru saman fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður úr fyrri rannsóknum höfunda í eina heild, með kenningarsamþættingu, um afleiðingar kynferðisofbeldis fyrir konur og leið þeirra til að innri lækningar og bata.

Aðferð: Kenningarsamþætting er notuð við kenningarsmíði. Meginþættir felast í því að smíða kenningu úr fyrirliggjandi niðurstöðum rannsókna og fræðilegra skrifa. Hún gerir kenningasmiðum kleift að skipuleggja og samþætta talsverðan fjölda niðurstaðna í eina kenningu. Kenningarsmíði með þessum hætti felur í sér þrjú meginskref: 1. Aðalhugtök og meginlýsingar tilgreind úr niðurstöðunum sem notaðar eru. 2. Leitað er í því sem áður hefur verið skrifað að atriðum sem tengjast aðalhugtökum eða meginlýsingum og tengslin könnuð. 3. Hugtökum og lýsingum sem varða það sem kenningin snýst um er raðað skipulega saman í eina heild.

Niðurstöður: Konurnar upplifðu sálrænt áfall eftir kynferðisofbeldið, viðbrögð eins og að frjósa, tilfinningar frusu innra með þeim, í taugakerfinu. Afleiðingar eins og líkamleg og sálræn einkenni komu fram eftir tilfinningalega aftenging, aftengingu líkama, huga og sálar. Konurnar þróuðu með sér vímuefnavanda, brotin mörk, sem leiddi til varnarleysis og berskjöldun fyrir endurteknum áföllum og ofbeldi. Til að vinna með afleiðingarnar var heildræn og samþætt nálgun mikilvæg þar sem unnið var með líkama, huga og sál.

Ályktanir: Alvarlegar afleiðingar geta komið fram eftir kynferðisofbeldi, mjög mikilvægt er að segja frá, fá félagslegan stuðning, slaka á streitunni í taugakerfinu og öðlast sjálfseflingu. Áfallamiðaða þjónusta er mikilvæg og þarf að innleiða í öll kerfi samfélagsins. Hún getur komið í veg fyrir að áföll séu endurvakin (e. retraumatization). Einnig er mikilvægt að í boði sé áfallamiðuð meðferð.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.