Aðalhöfundur: Anna Bryndis Einarsdottir
Vinnustaður eða stofnun: Landspítali
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sveinn Hákon Hardarson, Háskóli Íslands. Thomas Lee Torp, Odense University Hospital. Zolt Illes, Odense University Hospital. Jakob Grauslund, Odense University Hospital. Helle Hvilsted Nielsen, Odense University Hospital.
Inngangur: Meinafræðilegar breytingar sjást í sjónhimnu hjá einstaklingum með heila- og mænusigg. Súrefnismælingar í sjónhimnu greina breytingar í efnaskiptum súrefnis en þær geta verið vísbendingar um breytingar í sjónhimnu. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt breytingar í súrefnismettun sjónhimnuæða í öðrum miðtaugakerfissjúkdómum. Súrefnismettun sjónhimnuæða má mögulega hjálpa til við greiningu lífmerkja í heila- og mænusiggi.
Efniviður og aðferðir: Sjónhimnusúrefnismælingar meta súrefnismettun í slag- og bláæðum sjónhimnunnar án ífarandi tækni. Sjónhimnusúrefnismælir var notaður til að mæla súrefnismettun sjónhimnuæða hjá 29 einstaklingar með heila- og mænusigg, þar af 12 með sögu um sjóntaugabólgu og 17 án sögu um sjóntaugabólgu, og bornir saman við 29 heilbrigða einstaklinga. Súrefnismettun í sjónhimnuæðum einstaklinga með heila- og mænusigg var borið saman við meinafræðilegar breytingar í sjónhimnu.
Niðurstöður: Súrefnismettun í slag- og bláæðlingum var marktækt aukin hjá einstaklingum með heila- og mænusigg í samanburði við heilbrigða. Hjá einstaklingum með heila-og mænusigg og sögu um sjóntaugabólgu var marktækt aukin súrefnismettun í bláæðlingum miðað við heilbrigða augað.
Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna marktæka breytingu í efnaskiptum súrefnis hjá einstaklingum með heila- og mænusigg í samanburði við heilbrigða og jafnframt hjá einstaklingum með sögu um sjóntaugabólgu miðað við heilbrigða augað. Niðurstöðurnar sýna að súrefnismælingar í sjónhimnu geti hugsanlega hjálpað til við greiningu lífmerkja í heila- og mænusiggi. Þörf er á frekari rannsóknum til að staðfesta niðurstöður rannsóknar.