Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Streita meðal háskólastúdenta og helstu bjargráð

Aðalhöfundur: Jóhanna Bernhardsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Geðsvið Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Rúnar Vilhjálmsson, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Guðný Bergþóra Tryggvadóttir, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Inngangur: Háskólaárin eru tímabil umtalsverðra lífsbreytinga meðal námsmanna og því fylgja margvíslegar áskoranir sem geta haft áhrif á vellíðan nemenda og upplifun streitu. Erlendar rannsóknir sýna að streita eykst meðan á háskólanámi stendur, sérstaklega við upphaf náms og lok þess. Megintilgangur þessarar rannsóknar var að kanna streitustig háskólastúdenta á aldursbilinu 19-45 ára sem og að skoða helstu bjargráð þeirra.

Efniviður & aðferðir: Um var að ræða þversniðskönnun þar sem PSS-10 streitukvarðinn var lagður fyrir stúdenta ásamt bakgrunnsbreytum og bjargráðslista með Qualtricks hugbúnaðinum. Í úrtak voru valdir af handahófi 3000 námsmenn, 2000 konur og 1000 karlar. SPSS tölvuforritið var notað við tölfræðilega úrvinnslu og t-próf óháðra úrtaka ásamt dreifigreiningu framkvæmd til að kanna mun á milli hópa. Svarhlutfall var 53%, meðalaldur var 27 ár og voru 67% þátttakenda í grunnnámi. Um 38% voru einhleypir og tæp 30% voru foreldrar. Sjötíu prósent þátttakenda unnu með námi.

Niðurstöður: Meðalstreitustig var 18,7 meðal stúdentanna og streitustig kvenstúdenta var marktækt hærra en karlstúdenta. Konur í grunnnámi voru með marktækt hærra streitusig en þær sem voru í framhaldsnámi. Algengustu viðbrögð nemenda við streitu voru að gagnrýna sig og hugsa um vandann og finna lausn.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að streita íslenskra háskólastúdenta sé svipuð og meðal erlendra stúdenta og bjargráð þeirra sömuleiðs. Hins vegar sýna rannsóknir að streita er meiri meðal stúdenta en almennings, sem bendir til þess að þróa þurfi úrræði til að koma markvissar til móts við þarfir stúdenta vegna streitu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.