Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Hjúkrun Covid-19 smitaðra sjúklinga í göngudeild – Eigindleg rannsókn á reynslu hjúkrunarfræðinga

Aðalhöfundur: Katrín Blöndal
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands; Aðgerðasvið, Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Brynja Ingadóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands; Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar, Landspítala. Sólveig H. Sverrisdóttir, Aðgerðasvið, Landspítala. Anna Hafberg, Aðgerðasvið, Landspítala. Erla Dögg Ragnarsdóttir, Aðgerðasvið, Landspítala. Elín J.G. Hafsteinsdóttir, Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar, Landspítala. Sigríður Zoëga, Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands; Aðgerðasvið, Landspítala. Helga Jónsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands; Meðferðasvið, Landspítala.

Inngangur: COVID-19 faraldurinn leiddi til fordæmalausra atburða í íslensku heilbrigðiskerfi sem umbyltu þjónustu Landspítala. Strax í upphafi faraldursins var stofnuð göngudeild til að sinna Covid-19 smituðum sjúklingum á landsvísu og mæta yfirvofandi álagi. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa reynslu hjúkrunarfræðinga af því að hjúkra fullorðnum COVID-19 smituðum sjúklingum á göngudeild Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Eigindleg rýnihóparannsókn með viðtölum við hjúkrunarfræðinga sem unnu á Covid-19 göngudeild í fyrstu bylgju faraldursins. Af 29 hjúkrunarfræðingum sem bauðst þátttaka tóku 24 þátt. Þeir höfðu unnið > 12 vaktir á göngudeildinni. Myndaðir voru sjö rýnihópar með tveimur til fimm þátttakendum hver. Tekið var eitt viðtal við alla rýnihópana, utan einn, þar sem tekin voru tvö viðtöl. Gögn voru afrituð orðrétt og þemagreind skv. skrifum Clarke og Braun.

Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingarnir aðlöguðust skjótt breyttu fyrirkomulagi hjúkrunar og tæknilausnum. Við vöktun, klínískt mat og ákvarðanir varðandi sjúklinga sem þeir áttu einungis samskipti við í gegnum síma lögðu þeir fyrri þekkingu og reynslu til grundvallar. Til viðbótar stöðluðum gátlista reyndist nauðsynlegt að beita heilrænni nálgun svo unnt væri að  ná fram upplýsingar um raunverulega líðan og aðstæður sjúklinga og í framhaldinu að leiðbeina og styðja við sjálfsumönnun, heimaeinangrun og við að veita sálrænan stuðning.  Í staðþjónustu þurfi að leggja upp flókna verkferla á örskammri stundu, samhæfa aðgerðir og leiðbeina öðrum um smitgát.

Ályktanir: Hjúkrunarfræðingar gegndu lykilhlutverki á Covid-19 göngudeild Landspítala. Fjarhjúkrun reyndist áhrifarík leið til að annast sjúklinga með þennan lítt þekkta smitsjúkdóm. Þessa nýbreytni mun nýtast til undirbúnings og þróunar heilbrigðisþjónustu í framtíðinni.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.