Aðalhöfundur: Ingibjörg Magnúsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Arna Hauksdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Edda Björk Þórðardóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Gunnar Tómasson, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Harpa Rúnarsdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Hildur Ýr Hilmarsdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Jóhanna Jakobsdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Karen Sól Sævarsdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands. Thor Aspelund, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands, Hjartavernd, Reykjavík, Ísland. Unnur Anna Valdimarsdóttir, Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóli Íslands, Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Sweden, Department of Epidemiology, Harvard TH Chan School of Public Health, Boston, Massachusetts, USA.
Inngangur: Kórónaveirufaraldurinn er ein mesta lýðheilsufræðilega áskorun samtímans. Rannsóknir benda til hárrar tíðni geðrænna einkenna meðal COVID-19 sjúklinga á spítala, en fáar rannsóknir hafa skoðað tíðni einkenna í almennu þýði einstaklinga í bataferli sem sýkst hafa af COVID-19. Markmið rannsóknarinnar var að leggja mat á geðræn einkenni einstaklinga sem sýkst höfðu af COVID-19 til lengri tíma ásamt því að rannsaka tengsl alvarleika veikindanna við geðræn einkenni.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum úr Líðan þjóðar á tímum COVID-19 (n=22.849). Upplýsingum um bakgrunn þátttakenda, heilsufarslega þætti, flensulík einkenni og COVID-19 greiningu var safnað með rafrænum spurningalista. Geðræn einkenni voru metin með PHQ-9 þunglyndiskvarðanum, GAD-7 kvíðakvarðanum og PC-PTSD-5 áfallastreituröskunarkvarðanum. Poisson-aðhvarfsgreiningar voru notaðar til að meta fylgni og áhættuhlutföll ásamt 95% öryggisbili.
Niðurstöður: Í kjölfar fyrstu bylgju tóku 403 einstaklingar sem greinst höfðu með COVID-19 þátt í rannsókninni en eftir þriðju bylgju var fjöldi þátttakenda með sögu um staðfest smit orðinn 933. Fyrstu niðurstöður benda til stigmögnunar milli alvarleika COVID-19 veikinda og geðrænna einkenna. Greining á tengslum COVID-19 veikinda við geðræn einkenni yfir lengri tíma í öllum rannsóknarhópnum stendur nú yfir og verða niðurstöður kynntar á ráðstefnunni.
Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að alvarleiki COVID-19 veikinda spái fyrir um einkenni þunglyndis og áfallastreituröskunar hjá sjúklingum í bataferli. Mikilvægt er að fylgja eftir þessum fyrstu niðurstöðum í eftirfylgnisrannsóknum á geðrænum einkennum COVID-19 sjúklinga til lengri tíma.