Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Æðavíkkandi áhrif aspiríns á æðar úr legi og meltingarvegi í rottum: Rannsókn á meðhöndlun meðgöngueitrunar

Aðalhöfundur: Helga Helgadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Lyfjafræðideild

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Teresa Tropea, Miðstöð rannsókna á móður og fóstri, svið líffræði, læknisfræði og heilsu, Manchester Háskóli, Manchester, Bretlandi. Sveinbjörn Gizurarson, Háskóli Íslands, Lyfjafræðideild. Maurizio Mandala, Líffræði-, vist- og jarðvísindadeild, Haskólinn í Calabria, Rende (CS), Ítalía.

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að fyrirbyggjandi meðferð með aspiríni dragi úr líkum á snemmbúinni meðgöngueitrun. Á meðgöngu fer móðirin í gegnum umtalsverðar líffræðilegar breytingar til að styðja við fósturvöxt. Má þar nefna aukið blóðrúmmál og blóðflæði til fylgju og fósturs. Í meðgöngueitrun bregst þessi nauðsynlega aðlögun líkamans sem leiðir til alvarlegs ástands. Þrátt fyrir að aspirín sé nú þegar hluti af klínískum leiðbeiningum um allan heim og sé notað á áhættumeðgöngum, þá er verkunarmáti þess í meðgöngueitrun ekki þekktur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort að aspirín hafi bein æðavíkkandi áhrif á einangraðar æðar úr legi (uterine arteries, UA) og meltingarvegi (mesenteric arteries, MA) í þunguðum rottum og skoða hvaða verkunarmáti liggur þar að baki.

Efniviður og aðferðir: Einangruðum UA og MA úr þunguðum rottum var komið fyrir í líffærabaði. 40-50% samdráttur var framkallaður með fenýlefrín og í framhaldi voru áhrif aspiríns metin (10-12 M til 10-5 M) með því að bæta því ofan í lífeðlisfræðilega saltlausnina sem umlykur æðina.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að aspirín hefur öflug æðavíkkandi áhrif í UA og MA í þunguðum rottum og verkunarmátinn stjórnast af æðaþelinu. Niðurstöður sýndu jafnframt að verkunarmátinn er ólíkur í þessum tveimur æðakerfum, en í legæðunum er verkunarmátinn að miklu leyti háður nitur oxíðí og COX, en í æðunum úr meltingaveginum er verkunarmátinn háður kalsíum stýrðum jónagöngum og yfirskautun í æðaþelinu.

Ályktanir: Auk þess að sýna fram á ólíkan verkunarmáta milli æðakerfa þá sýna niðurstöðurnar að áhrif aspiríns eru flókin og margþætt og að verkunarmáti þess er ekki einungis í gegnum áður þekkt áhrif þess á blóðflögur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.