Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Bráður nýrnaskaði eftir bæklunaraðgerðir á Íslandi

Aðalhöfundur: Helga Þórsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Martin Ingi Sigurðsson, Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands. Ólafur Skúli Indriðason, Lyflækningaþjónusta Landspítala. Runólfur Pálsson, Lyflækningaþjónusta Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands. Þórir Einarsson Long, Lyflækningaþjónusta Landspítala.

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og inngripa á borð við skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða á Landspítala og athuga sjúklinga- og aðgerðartengda þætti sem tengjast tilkomu BNS.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk ferilrannsókn sem náði til allra einstaklinga 18 ára og eldri sem undirgengust bæklunarskurðaðgerð á Landspítala milli 2006–2018 og áttu kreatínínmælingu innan 30 daga fyrir aðgerð og innan 7 daga eftir aðgerð. BNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-skilmerkjunum. Sjúklinga-og aðgerðartengdar breytur voru fengnar úr íslenska aðgerðagrunninum. Einbreytu- og fjölbreytugreining voru notaðar til að skoða tengsl sjúklinga-og aðgerðartengdra þátta við BNS.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 222 tilfelli BNS í kjölfar 3208 (6,9%) aðgerða og jókst nýgengið um 17% á ári. Fjölbreytugreining leiddi í ljós að áhætta á BNS tengdist aldri (líkindahlutfall  (LH) 1,02, 95% öryggisbil (ÖB) 1,01-1,04 per ár), karlkyni  (LH 1,37,73, 95%,ÖB 1,02-1,85), og undirliggjandi skerðingu á nýrnastarfsemi (LH 1,93, 3,24 og 4,08 fyrir reiknaðan gaukulsíunarhraða (r-GSH) 30-59, 15-29 og undir 15 samanborið við yfir 60 ml/mín./1,73 m2). BNS tengdist auknum dánarlíkum í kjölfar bæklunarskurðaðgerðar (áhættuhlutfall  1,04, 95% ÖB 1,08-1,85) þó að leiðrétt væri fyrir aldri, kyni, undirliggjandi nýrnastarfsemi, bráðri tilkomu aðgerðar og undirliggjandi sjúkdóms- og hrumleikabyrði sjúklinganna

ÁlyktanirNýgengi BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða er vaxandi og BNS tengist verri horfum í kjölfar aðgerðanna. Sjúklingatengdir þættir sem tengjast BNS benda til þess að fylgjast beri gaumgæfilega með öldruðum sjúklingum og einstaklingum með skerta nýrnastarfsemi með tilliti til BNS og tryggja að þeir fái viðeigandi undirbúning, meðferð og vöktun.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.