Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Acetýlsalicýlsýra lækkar dánartíðni sjúklinga með lungnabólgu af völdum Streptococcus pneumoniae

Aðalhöfundur: Kristján Godsk Rögnvaldsson
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Agnar Bjarnason, Smitsjúkdómadeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands. Karl Kristinssson, Akutklinikken Rikshospitalet Oslo. Helga Erlendsdóttir, Sýkla- og veirufræðideild Landspítala, Háskóli Íslands. Guðmundur Þorgeirsson, Hjartadeild Landspítali, Læknadeild Háskóla Íslands. Magnús Gottfreðsson, Vísindadeild og smitsjúkdómadeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands.

Inngangur: Árlega deyja um tvær milljónir manna vegna lungnabólgu og Streptococcus pneumoniae (pneumókokkar) eru algengasta sýklafræðilega orsökin. Vísbendingar eru um að acetýlsalicýlsýra (ASA) geti bætt skammtímahorfur í sjúklingum með lungnabólgu, en rannsóknir á langtímalifun skortir. Markmið rannsóknarinnar er að meta áhrif ASA á skamm- og langtímalifun í kjölfar greiningar pneumókokka lungnabólgu.

Efniviður og aðferðir: Sjúkragögn allra sem greindust með blóðsýkingu af völdum S. pneumoniae og staðfesta lungnabólgu á Íslandi árin 1975-2005 voru yfirfarin. Lógistísk aðhvarfsgreining og Cox aðhvarfsgreiningar voru framkvæmdar með vigtun eftir líkindaskori og lifun reiknuð. Endapunktar í rannsókninni voru dauði við 30 daga, 90 daga og 1 ár.

Niðurstöður: Alls greindust 480 tilfelli, þar af tóku 58 ASA við greiningu. ASA-tilfelli voru að meðaltali eldri og með meiri byrðar undirliggjandi sjúkdóma. Óleiðrétt var dánartíðni ASA-hópsins 10.3%, 12.1% og 19.0% við 30 daga, 90 daga og 1 ár en 13.3% 17.5% og 25.2% í hópnum sem var ekki á ASA. Eftir vigtun með líkindaskori var gagnlíkindahlutfall dauða ASA-tilfella 0.35 (95% öryggisbil 0.13-0.94), 0.29 (0.11-0.73) og 0.36 (0.16-0.79) fyrir 30 daga, 90 daga og 1 ár og samkvæmt Cox aðhvarfsgreiningu var áhættuhlutfallið 0.39 (0.16-0.95), 0.33 (0.14-0.77) og 0.41 (0.21-0.80). ASA tengdist ekki betri lifun við 5 og 15 ára eftirfylgd.

Ályktanir: ASA tengdist betri lifun sjúklinga með ífarandi pneumókokkalungnabólgu við 30 daga, 90 daga og 1 ár en ekki við 5 né 15 ár. Upplýsingarnar geta nýst til þess að undirbúa tvíblinda slembirannsókn með lyfleysu til samanburðar til þess að meta raunveruleg áhrif lyfsins á horfur í kjölfar lungnabólgu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.