Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Svipgerðir sem tengjast arfgerð (HFE-C282Y arfhreinir) arfgengs járnhleðslukvilla af gerð 1

Aðalhöfundur: Inga Stefanía Geirsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Íslensk erfðagreining ehf., Læknadeild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Magnús K. Magnússon, Íslensk erfðagreining ehf., Læknadeild, Háskóli Íslands. Sigrún Helga Lund, Íslensk erfðagreining ehf.. Egil Ferkingstad, Íslensk erfðagreining ehf.. Jóhann Ragnarsson, Læknadeild, Háskóli Íslands. Kjartan Helgason, Læknadeild, Háskóli Íslands. Brynjar Viðarsson, Landspítali Háskólasjúkrahús, Læknasetrið ehf.. Guðmundur Rúnarsson, Landspítali Háskólasjúkrahús, Læknasetrið ehf.. Hilma Hólm, Íslensk erfðagreining ehf.. Daníel F. Guðbjartsson, Íslensk erfðagreining ehf.. Unnur Þorsteinsdóttir, Íslensk erfðagreining ehf.. Patrick Sulem, Íslensk erfðagreining ehf.. Kári Stefánsson, Íslensk erfðagreining ehf., Læknadeild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Arfgengur járnhleðslukvilli (e. Hereditary hemochromatosis, HH) er algengasti þekkti víkjandi erfðasjúkdómurinn í fólki af norður evrópskum uppruna, oftast vegna stökkbreytingar C282Y í HFE geni. Sjúkdómssýnd HH er mjög breytileg, en aðeins hluti þeirra með arfgerðir tengdar HH þróa með sér járnofhleðslu eða HH. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl arfhreinna C282Y við hinar ýmsu svipgerðir í aðgengilegum erfðagagnasöfnum.

Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var safngreining á svipgerðargreiningum arfhreinna C282Y einstaklinga í gögnum Íslenskrar erfðagreiningar (n=163741, MAF=6.7%), UK Biobank (n=430940, MAF=7.3%) og Finngen (n=176899, MAF=3.7%). Könnuð voru tengsl við tilfella-viðmiða svipgerðir og niðurstöður úr blóðmælingum.

Niðurstöður: Hjá arfhreinum C282Y var marktækur munur á algengi eftirfarandi sjúkdómsgreininga miðað við þá sem bera engan C282Y arfbreytileika (gagnlíkindahlutfall(OR), p gildi): Hemochromatosis (1994.40, P<1e-300), polycythemia vera (13.76, P=5.4e-27), hepatocellular carcinoma (21.22, P=9.9e-26), slitgigt í mjöðm (1.99, P=8.2e-17), lifrartrefjun og skorpulifur (5.18, P=4.1e-14), mjaðmaliðskipti (2.02, P=1.4e-10), staðbundin húðsýking (2.76, P=6.9e-8), kransæðasjúkdómur (0.75, P=1.5e-6). Sýnd járnofhleðslu (ferritín >400 µg/L) hjá arfhreinum C282Y var 75% hjá körlum og 34% hjá konum, en hún var bæði algengari og alvarlegri hjá eldri einstaklingum. Einnig voru tengsl við háan blóðrauða (P=4.7e-131) og lágt kólesteról (P=8.8e-78).

Ályktanir: Arfhreinir einstaklingar fyrir C282Y arfbreytileikann hafa verulega sjúkdómsbyrði umfram þá sem bera ekki C282Y arfbreytileika. Þar sem mögulegt er að koma í veg fyrir meinvaldandi járnofhleðslu með snemmgreiningu og meðhöndlun verður rætt hvernig hægt sé að stuðla að snemmgreiningu arfhreinna einstaklinga.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.