Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Viðhorf lækna og sjúklinga til lyfjaskipta á adalimumab: úr Humira® yfir í Imraldi®

Aðalhöfundur: Kristín Karlsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Lyfjafræðideild, Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir, Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, Sjúkrahúsapótek Landspítali. Gerður Gröndal, Gigtarlækningadeild Landspítala. Þorvarður J. Löve, Læknadeild Háskóla Íslands. Lóa G. Davíðsdóttir, Meltingarlækningadeild Landspítala. Ragna Hlíf Þorleifsdóttir, Læknadeild Háskóla Íslands. Björn Guðbjörnsson, Rannsóknarstofa í gigtarsjúkómum Landspítali, Læknadeild Háskóla Íslands.

Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þekkingu, viðhorf og ásættanleika liðbólgusjúklinga, þarmabólgusjúklinga, psoriasissjúklinga og sérfræðilækna í gigtarlækningum, meltingarlækningum og húðlækningum á lyfjaskiptunum sem gerð voru 1. mars 2019 þegar skipt var úr líftæknilyfinu Humira® yfir í líftæknilyfja-hliðstæðuna Imraldi® og hvernig til tókst við þau skipti.

Aðferðir: Rannsóknin var framkvæmd á Landspítalanum á tímabilinu nóvember 2019 til apríl 2020. Tveir spurningarlistar voru hannaðir af rannsakendum, annar var lagður símleiðis fyrir sjúklinga og  hinn, rafrænn spurningalisti, var sendur á sérfræðilæknana.

Niðurstöður: Af þeim 198 sjúklingum sem samþykktu þátttöku þá var mikill meirihluti þeirra sem þekktu hugtakið líftæknilyf (79%) og fengu fræðslu (79%) um þau við upphaf meðferðar. Mikið færri þekktu hugtakið líftæknilyfjahliðstæða (22%) og fengu fræðslu (32%) um lyfjaskiptin þegar meðferð með Imraldi® hófst. Afgerandi ánægja var með Humira® meðferð (88%) en færri voru ánægðir með Imraldi® meðferð (52%). Rúmlega helmingur þátttakenda upplifðu sig örugga (56%) við lyfjaskiptin en þó voru einungis 48% þeirra ánægðir og 31% jákvæðir gagnvart skiptunum.

Af þeim 43 sérfræðilæknum sem samþykktu þátttöku var yfirgnæfandi meirihluti sem þekkti líftæknilyf og líftæknilyfjahliðstæður, þar sem 86% þekktu líftæknilyfið Humira® og 77% þekktu líftæknilyfjahliðstæðuna Imraldi® vel. Mismunandi niðurstöður fengust milli sérfræðilækna gagnvart lyfjaskiptunum en gigtarlæknar voru afgerandi ánægðastir með hvernig til tókst. Töldu sérfræðilæknarnir Imraldi® meðferð vera jafn áhrifaríka og örugga og meðferð með Humira®. Flestir sérfræðilæknanna myndu ávísa ódýrari lyfi ef engar hömlur væru á ávísun líftæknilyfja.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að lyfjaskiptin hafi valdið sjúklingum kvíða en í ljós kom að sjúklingum þótti meðferð með Imraldi® var jafn örugg og Humira®. Sérfræðilæknar töldu meðferðirnar vera jafn áhrifaríkar og myndu oftast kjósa að ávísa ódýrara lyfinu. Benda niðurstöður til þess að bæta þurfi upplýsingaflæði og fræðslu til sjúklinga við lyfjaskipti sem þessi til að koma í veg fyrir óþarfa áhyggjur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.