Aðalhöfundur: María J. Gunnarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sigurður M. Garðarsson, Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Ása Atladóttir, Embætti landlæknis.
Tilgangur: Hreint neysluvatn er undirstaða lýðheilsu. Algengasta orsök sýkinga af völdum neysluvatns eru sýklar sem berast í vatnið með saur manna eða dýra. Markmið þessarar rannsóknar var að taka saman skráðar vatnsbornar hópsýkingar á tuttugu ára tímabili, 1998-2017, og greina hvað hafi valdið þeim. Jafnframt voru tekin saman tilvik þar sem neysluvatn hafði mengast þó sjaldan sé skráð hópsýking í tengslum við þau.
Aðferðir: Gögn voru fengin úr gagnagrunnum rannsóknastofanna Matís ohf, ProMat Akureyri ehf, Sýni ehf og Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, og frá Embætti sóttvarnalæknis, skýrslum og viðtölum við viðkomandi heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalækna.
Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna að á tímabilinu sem var skoðað voru skráðar fimmtán vatnsbornar hópsýkingar, allar hjá minni vatnsveitum og sumar á fjölförnum ferðamannastöðum og í sumarhúsabyggðum. Sýkillinn er ýmist Campylobacter eða nóróveira og í einu tilfelli Cryptosporidium (launsporasýking). Um 500 manns urðu veikir í þessum hópsýkingum og þær höfðu áhrif á um 8000 manns, í lengri eða skemmri tíma. Greining á niðurstöðum neysluvatnssýna leiddi í ljós að saurmengun greinist að meðaltali í um 50 vatnsveitum á ári hverju sem er um 5% af skráðum vatnsveitum landsins. Helsta orsök vatnsbornu hópsýkinganna er lélegur frágangur og viðhald á vatnsbólum.
Ályktanir: Nauðsynlegt er að bæta skráningu, upplýsingaflæði milli aðila, faraldsfræðilegar úttektir og eftirfylgni við hópsýkingar af völdum neysluvatns þannig að hægt sé að læra af reynslunni. Bæta þarf vatnsgæði hjá minni vatnsveitum og taka upp fyrirbyggjandi úttektir og hættumat á mengun.