Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Ungbarnadauði á Íslandi 1989-2018

Aðalhöfundur: Hera Björg Jörgensdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Kvennadeild Landspítala, Barnaspítali Hringsins

Inngangur: Tíðni ungbarnadauða á Íslandi er mjög lág. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og orsakir ungbarnadauða hér á landi sl. 30 ár, og hvaða breytingar hafa orðið þar á.

Efni og aðferðir: Rannsóknartímabilið var 1989-2018, skipt í þrjú 10 ára tímabil. Nýgengi var reiknað sem fjöldi dauðsfalla á hver 1000 lifandi fædd börn. Dánarorsakir voru flokkaðar eftir ICD-10 flokkunarkerfinu í 10 yfirflokka: kvillar með upphaf á burðarmálsskeiði, meðfæddar vanskapanir og litningafrávik, illa skilgreindar orsakir, smit- og sníklasjúkdómar, æxli, innkirtla-, næringar- og efnaskiptasjúkdómar, sjúkdómar taugakerfis og skynfæra, sjúkdómar blóðrásarkerfis, sjúkdómar meltingarfæra og ytri orsakir.

Niðurstöður: Nýgengið lækkaði marktækt milli 1. og 2. tímabils (5,04‰ og 2,4‰;p<0,001) og hefur síðastliðinn áratug verið í kringum 2‰. Flest dauðsföll (209) voru í flokki burðarmálskvilla en næstflest vegna fæðingargalla. Lækkun á nýgengi burðarmálskvilla sem dánarorsök var marktæk milli allra tímabila. Undir þeim flokki voru algengustu orsakir fyrirburaskapur og vanþroski. 87 létust vegna meðfæddra vanskapana og flestir vegna meðfæddra hjartagalla. Vöggudauða fækkaði úr 26 tilfellum í 9 milli 1. og 3. tímabils.

Ályktanir: Umtalsverð lækkun hefur orðið á ungbarnadauða hér á landi sl. 30 ár og er nýgengið eitt það lægsta í heiminum. Erfitt að meta breytingar á nýgengi eftir dánarorsökum vegna fárra dauðsfalla, en lækkunin hefur verið einna mest í flokki burðarmálsdauða, auk þess sem umtalsverð lækkun hefur orðið á vöggudauða. Mikilvægt er að reyna að greina hvernig hugsanlega er hægt að fækka dauðsföllum á fyrsta aldursári enn frekar svo hægt sé að lækka ungbarnadauða hér á landi enn frekar frá því sem nú er.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.