Aðalhöfundur: Lilja Vigfúsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Embla Ýr Guðmundsdóttir, Háskóli Íslands. Helga Gottfreðsdóttir (flytjandi), Háskóli Íslands.
Inngangur: Rannsóknir sýna verri útkomur erlendra kvenna í barneignaferlinu, en þeim ber ekki saman um hvort þær fæði oftar fyrirbura. Áhættuþættir fyrirburafæðinga eru flestir tengdir móðurinni og marga þeirra er hægt að bera kennsl á, koma í veg fyrir eða veita meðferð við í meðgönguvernd. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum hjá íslenskum og erlendum konum á Íslandi og hvort munur væri þar á.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýðgrunduð ferilrannsókn. Gögn voru fengin úr Fæðingaskrá. Ferilhópurinn voru allar konur sem fæddu einbura frá 23 til 37 viku meðgöngu á Íslandi á árunum 1997-2018. Hópnum var skipt í tvennt; konur með íslenskan og erlendan ríkisborgararétt. Frekari skipting hópsins var gerð með tilliti til HDI-stuðuls ríkisfangslands þeirra. Tíðni fyrirburafæðinga og áhættuþátta fyrir fyrirburafæðingum var greind eftir þessum flokkum og marktækni á mun mæld með kí-kvaðrat prófi.
Niðurstöður: Marktækur munur var á tíðni fyrirburafæðinga hjá íslenskum (4,4%) og erlendum konum (5,6%) (p<0,001). Erlendar konur frá mið-HDI löndum fæddu fyrir tímann í 5,5% tilfella (p<0,01) og konur frá lágt-HDI löndum í 6,4% tilfella (p<0,001). Erlendar konur greindust oftar með þvagfærasýkingar, sykursýki, vaxtarskerðingu og fyrirmálsrifnun himna, en sjaldnar með meðgöngueitrun, offitu, fylgjugalla, geðræn vandamál og aldur <18 ára (p<0,05).
Ályktanir: Erlendar konur á Íslandi fæða oftar fyrirbura en íslenskar konur, þessi munur finnst helst hjá konum frá mið-HDI löndum og lágt-HDI löndum. Þetta er í samræmi við margar erlendar rannsóknir. Munur á áhættuþáttum er til staðar og þarfnast frekari rannsókna. Taka þarf tillit til þessara þátta í áframhaldandi þróun meðgönguverndar erlendra kvenna á Íslandi.