Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Tengsl eineltis og andlegrar líðanar íslenskra grunnskólanemenda

Aðalhöfundur: Rúnar Vilhjálmsson
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Inngangur: Rannsóknir benda til að einelti meðal barna og unglinga geti haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar, bæði til skemmri og lengri tíma. Rannsóknin athugaði tengslin milli eineltis og andlegrar líðanar grunnskólanema og hvort þessi tengsl réðust af stefnu (þolandi-gerandi) eineltisins og bakgrunni nemendanna.

Efniviður & aðferðir: Landskönnunin Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) fór fram árið 2018 meðal nemenda í 6., 8. og 10. bekk. 7.159 nemendur á landinu öllu svöruðu stöðluðum spurningalista. Fjöldi svarenda var 55,5% af heildarfjölda nemenda í grunnskólum landsins og heimtur (svarhlutfall) í þátttökuskólunum voru yfir 80%. Spurt var hvort nemendurnir hefðu orðið fyrir einelti (tvisvar eða oftar í mánuði) og hve oft þeir hefðu tekið þátt í að leggja annan nemanda í einelti. Líðan var metin útfrá tveimur spurningakvörðum um lífsánægju og vanlíðunareinkenni. Loks voru nemendurnir spurðir um aldur, kyn, fjölskyldugerð, uppruna, efnahag fjölskyldu og búsetu.

Niðurstöður: Þolendur eineltis upplifðu mun minni lífsánægju og meiri vanlíðunareinkenni en aðrir. Veikari tengsl komu fram milli líðanar og þess að leggja einhvern í einelti. Jafnframt reyndist líðan nemendanna tengjast samspili milli þess að þola og framkvæma einelti. Þannig var vanlíðan þolenda heldur minni en vænta mætti og lífsánægja þeirra heldur meiri ef þeir voru jafnframt gerendur. Ekki reyndist munur á tengslum eineltis og líðanar milli einstakra hópa nemenda.

Ályktanir: Einelti hafði afgerandi neikvæð tengsl við lífsánægju og líðan grunnskólanema hvort sem þeir voru þolendur eða gerendur. Hin neikvæðu tengsl voru svipuð í einstökum hópum nemenda. Niðurstöðurnar benda til mikilvægis aðgerða er spornað gætu við einelti innan íslenskra grunnskóla.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.