Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Súrefnisbúskapur sjónhimnu í sykursýki og æðalokunum

Aðalhöfundur: Sveinn Hákon Harðarson
Vinnustaður eða stofnun: Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar H.Í.

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Einar Stefánsson, Augndeild Landspítala, Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar H.Í.. Ólöf Birna Ólafsdóttir, Augndeild Landspítala, Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar H.Í.. Toke Bek, Augndeild Háskólasjúkrahússins í Árósum. Þórunn Scheving Elíasdóttir, Hjúkrunarfræðideild H.Í., Svæfinga- og skurðhjúkrun Landspítala.

Inngangur: Innri hluti sjónhimnu er nærður af fíngerðum sjónhimnuæðum. Röskun á þessu æðakerfi vegna æðalokana eða sykursýki getur ógnað sjón. Mat á slíkri röskun hefur aðallega verið framkvæmt með skoðun á sjáanlegum breytingum eins og blæðingum eða bjúgmyndun. Hér verður hins vegar gefið yfirlit um rannsóknir á súrefnisbúskap sjónhimnu við æðalokanir eða sykursýki.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismælirinn (Oxymap ehf.) tekur myndir af sjónhimnu með tveimur sérvöldum bylgjulengdum. Hugbúnaður finnur æðar á myndunum, reiknar ljósgleypni og súrefnismettun. Súrefnismælirinn var notaður til að taka myndir af 14 einstaklingum með miðbláæðarlokun. Mælingar voru einnig gerðar á 722 sjúklingum með sykursýki og var 214 þeirra fylgt eftir og mæling gerð síðar til að athuga framgang. Miðgildi lengdar eftirfylgdar var 3,0 ár (bil 0,76-6,8 ár).

Niðurstöður: Súrefnismettun var 31±12% í bláæðlingum auga með stíflaða miðbláæð en 52±11% í hinu auga sama sjúklings (n=14, p<0,0001). Þversniðsrannsókn á sjúklingum með sykursýki (n=722) sýndi að súrefnismettun var sjálfstæð skýribreyta fyrir alvarleika sjónhimnusjúkdóms, þegar alvarleikinn var metinn út frá fjölda rauðra bletta í sjónhimnu (rauðir blettir eru blæðingar eða háræðagúlar). Langsniðsrannsókn (n=214) sýndi að súrefnismettun í sjónhimnuæðum jókst með eftirfylgd, jafnvel þótt breytingar á fjölda rauðra bletta væru minniháttar og ómarktækar.

Ályktanir: Mikil breyting verður á súrefnismettun í sjónhimnu við miðbláæðalokun í sjónhimnu. Mælingar á sykursjúkum benda til þess að breytingar á súrefnismettun í sjónhimnu verði áður en sjáanlegar skemmdir koma fram í sjónhimnu. Mælingar á efnaskiptum (súrefnismettun) gætu gefið hjálplegar upplýsingar um framgang sykursýki.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.