Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Stýrð kennsla Engelmanns og fimiþjálfun í lestrarkennslu í 1. og 2. bekk grunnskóla

Aðalhöfundur: Harpa Óskarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, Háskóli Íslands.

Inngangur: Kennsluaðferðin Stýrð kennsla Engelmanns (Direct Instruction) er raunprófuð aðferð sem hefur reynst áhrifarík í enskumælandi löndum í áratugi. Aðferðin hefur reynst sérlega áhrifarík ef Fimiþjálfun (fluency building) er notuð samhliða henni. Hérlendis hafa verið gerðar endurteknar rannsóknir með einliðasniðum sem hafa athugað áhrif aðferðanna á nám einstaklinga.

Aðferð: Hópsamanburðarrannsókn var gerð á áhrifum aðferðanna á lestrarfærni nemenda í 1. og 2. bekk grunnskóla þar sem kennarar beittu aðferðunum. Þátttakendur voru allir nemendur í einum árgangi í tveimur sambærilegum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu, alls 78 nemendur. Nemendur í einum skóla voru tilraunahópur sem fengu kennslu með aðferðunum og í hinum skólanum var samanburðarhópur sem fékk hefðbundna kennslu. Staða allra nemenda í námsefninu var athuguð í upphafi og lok hvers skólaárs, á 8 breytum í 1.bekk og 11 breytum í 2.bekk. Gerður var samananburður á milli hópa og framfarir innan hópa voru skoðaðar.

Niðurstöður: Hóparnir höfðu sambærilega færni áður en kennsla hófst í 1. bekk. Í lok skólaársins sýndu báðir hópar marktækar framfarir á öllum 8 breytunum en tilraunahópur mældist með marktækt meiri færni í 5 breytum og sambærilega færni í hinum þremur. Í lok 2. bekkjar sýndi tilraunahópur framfarir á öllum 11 breytunum sem athugaðar voru og samanburðarhópur sýndi framfarir á 7 breytum og afturför á einni. Nemendur í tilraunahóp höfðu marktækt meiri færni en samanburðarhópur á 10 breytum og sambærilega færni á einni.

Ályktun: Nemendur sem fengu kennslu með raunprófuðu aðferðunum sýndu meiri framfarir og höfðu meiri færni í lestri en nemendur í samanburðarhóp að loknum 1. og 2. bekk.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.