Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Streita og kulnun hjúkrunarfræðinema á lokaári

Aðalhöfundur: Birna Guðrún Flygenring
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Herdís Sveinsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands; Landspítali.

Inngangur: Einkenni streitu og kulnunar byrja oft í hjúkrunarfræðinámi og tengjast bæði bóklegu og klínísku námi. Nemendur sem upplifa streitu og kulnun í námi eru líklegri til að upplifa slíkt þegar þeir hefja störf eftir útskrift og líklegri að hætta í starfi. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa streitu og kulnun hjá lokaárs hjúkrunarfræðinemum í HÍ og HA; skoða samband breytanna innbyrðis og við nám, framtíðaráform, bjargráð og bakgrunnsbreytur og greina áhrifaþætti streitu og kulnunar.

Efniviður og aðferðir: Aðferðin var megindleg með lýsandi könnunarsniði. Gagna var aflað rafrænt með spurningalista sem innihélt mæltiækin Perceived Stress Scale (PSS) og Copenhagen Burnout Inventory (CBI) sem mældu streitu og kulnun. Línuleg aðhvarfsgreining greindi áhrifaþætti streitu og kulnunar.

Meginniðurstöður:  Þátttakendur voru 82 (72.6% svörun), 51 frá HÍ og 29 frá HA. Ekki reyndist munur á nemendum skólanna á neinum breytum rannsóknarinnar. Meðalstig streitu á PSS var 17,8 á kvarða frá 9-40, á persónutengdri kulnun 42,9, á námstengdri kulnun 56,9 og á kulnun tengdri samnemendum 31,2 á kvörðum frá 0-100. Meirihluti nemenda upplifði mikla streitu tengda ástundun háskólanáms (85%) og tengda skorti á námsleiðbeiningum (57%). Fjórar aðhvarfsgreinar voru unnar. Þættir sem spáðu fyrir streitu voru; stuðningur við nám og námsleiðbeiningar. Þættir sem spáðu fyrir kulnun voru; aldur nemenda (30 ára og eldri), streita tengd ástundun háskólanáms, samskipti við kennara og streita á PSS kvarðanum.

Ályktun: Hjúkrunarfræðinemar á lokaári upplifa streitu og kulnun í námi. Mikilvægt er finna leiðir til að fyrirbyggja og meðhöndla streitu og draga úr kulnun meðan á náminu stendur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.