Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Smokkanotkun ungra karlmanna: Eigindleg rannsókn

Aðalhöfundur: Katrín Hilmarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í Lýðheilsuvísindum

Inngangur: Fáar eigindlegar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis á viðhorfum ungra karlmanna til smokkanotkunar. Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða viðhorf ungra, íslenskra karlmanna til smokkanotkunar sérstaklega m.t.t. almennrar notkunar, hvað letji og hvetji notkunina.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggist á eigindlegri aðferð. Einstaklingsviðtöl voru tekin við 13 íslenska unga karlmenn á aldrinum 18-25 ára. Viðtölin voru þemagreind eftir aðferðinni „framework analysis“.

Niðurstöður: Frásagnir ungu karlmannanna gáfu til kynna að viðhorf þeirra, þekking og aðgengi að smokkum skipti miklu máli varðandi notkun þeirra. Sjálf smokkanotkunin gat verið flókin og valdið ungu karlmönnunum hugarangri og áhyggjum. Það að rjúfa augnablikið til að sækja smokkinn, setja hann á og upplifa og viðhalda kynferðislegri tilfinningu með smokk gat verið áhyggjuvaldandi. Sumir höfðu þó öðlast öryggi við smokkanotkun og lýstu jákvæðri reynslu og viðhorfi. Margir lýstu óvissu um hvernig samskipti við hinn aðilann ættu að fara fram. Smokkanotkun var því oftar en ekki ákvörðuð út frá ályktunum annars eða beggja aðilanna út frá orðafáum samskiptum.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi fram á jákvæða og neikvæða þætti varðandi smokkanotkun og upplifunin af sjálfri notkuninni gat reynst erfið. Með aukinni þekkingu á upplifun ungra karlmanna á smokkanotkun má betur sníða kynfræðslu að þeirra þörfum, bæta upplifun þeirra af smokkanotkun, auka þannig smokkanotkun og mögulega minnka tíðni kynsjúkdóma.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.