Aðalhöfundur: Brynja Ingadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ásta Bryndís Schram, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Helga Sif Friðjónsdóttir, Meðferðarsvið Landspítala, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Inngangur: Innan HÍ hefur verið kallað eftir innleiðingu nemendamiðaðra og fjölbreyttra kennslu- og námsmatsaðferða. Við endurskoðun námskrár í hjúkrunarfræði varð til nýtt námskeið um samskipti og sjúklingafræðslu þar sem æfingar (í hlutverkaleikjum og raunverulegum aðstæðum), vendikennsla og hópvinna voru notaðar til kennslu, og ígrundun, próf, verkefni og dagbækur voru notuð til námsmats.
Efniviður og aðferðir: Markmið rannsóknarinnar var að lýsa þróun námskeiðsins og meta árangur þess. Notaðar voru blandaðar aðferðir s.s. dagbókarskrif, spurningakönnun með Likert skala 1-6 sem metur m.a. þætti er tengjast áhugahvöt nemenda (MUSIC®), rýnihópur og kennslukönnun. Gögnum var safnað samhliða kennslu námskeiðsins, 2018-2019, frá nemendum og kennurum.
Niðurstöður: Dagbókarfærslur (304 færslur frá 63 nemendum) og viðtal við rýnihóp (n=4) sýndu að nemendur kunnu að meta nýjungar og fjölbreytni í kennsluháttum og námsmati, en þær krefjast skipulags og samfelldrar virkni í náminu sem getur verið erfitt fyrir nemendur að uppfylla. Þættir áhugahvatar mældust frá M 4,0 (sf 1,0) til M 5,3 (sf 0,7). Fjölbreytt námsmat og endurgjöf til fjölmennra hópa nemenda er jafnframt krefjandi og tímafrekt fyrir kennara. Sjá mátti stíganda í námi nemenda og námsmat leiddi í ljós að vel gekk að ná hæfniviðmiðum námskeiðsins. Skortur á hentugu húsnæði og fjölmennir árgangar voru áskorun fyrir kennara og nemendur.
Ályktun: Innleiðing fjölbreyttra kennsluhátta krefst góðs undirbúnings. Útskýra þarf vel fyrir nemendum tilgang slíks vals og til hvers er ætlast af þeim sjálfum. Hentugt húsnæði og kostnaður við þjálfun nemenda í litlum hópum eru þættir sem hafa áhrif á fýsileika slíkrar innleiðingar og stuðningur stjórnenda er nauðsynlegur fyrir árangur.