Aðalhöfundur: Kristín Hulda Kristófersdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar HR, Vaka Vésteinsdóttir, lektor við sálfræðideild HÍ, Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðideild HR, Fanney Þórsdóttir, dósent við sálfræðideild HÍ.
Inngangur: Notkun summuskors PHQ-9 við mat á alvarleika þunglyndis og til skimunar bæði í rannsóknum og í klínísku starfi gefur til kynna að það búi yfir ákveðnum eiginleikum; þ.e. að það heimili röðun bæði hópa og einstaklinga eftir alvarleika þunglyndis og að það hafi skýra merkingu sem heimili ályktanir um einstaklinga (t.d. til skimunar, flokkunar, samanburðar).
Efniviður og aðferðir: Þessir eiginleikar summuskors PHQ-9 voru kannaðir með Mokken greiningu í heilsugæsluúrtaki 618 einstaklinga. Tvö Mokken líkön voru metin: 1) monotone homogeneity líkan sem kannar stigveldisröðun atriðanna og 2) double monotonicity líkan sem kannar hvort röðunin haldi óháð alvarleika þunglyndis.
Niðurstöður: Atriði PHQ-9 mynda meðal-nákvæman stigveldiskvarða (H = 0.431) og hafa flest þeirra ásættanlegt aðgreiningarafl (0.296 < Hi < 0.522). Þegar atriði 3 er fjarlægt úr kvarðanum þá heldur stigveldisröðun atriðanna óháð alvarleika þunglyndis með meðal-nákvæmni (HT = 0.476).
Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að eiginleikar summuskors PHQ-9 1) leyfi meðal-nákvæma röðun hópa einstaklinga með sama summuskorið og 2) að það heimili bæði röðun einstaklinga og ályktanir um einstaklinga með meðal-nákvæmni þegar atriði 3 er fjarlægt úr kvarðanum.