Aðalhöfundur: Ragnhildur Guðmannsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Rannsóknastofa í næringarfræði
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Bryndís Eva Birgisdóttir, Rannsóknastofa í næringarfræði. Ellen Alma Tryggvadóttir, eat2@hi.is. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Embætti landlæknis. Ingibjörg Gunnarsdóttir, Rannsóknastofa í næringarfræði. Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Embætti landlæknis. Ólöf Guðný Geirsdóttir, Rannsóknastofa í næringarfræði. Steina Gunnarsdóttir, Rannsóknastofa í næringarfræði. Þórhallur Ingi Halldórsson, Rannsóknastofa í næringarfræði.
Inngangur: Mataræði er einn af megin áhrifaþáttum lýðheilsu. Landskannanir á mataræði gefa góða mynd af mataræði þjóðarinnar og eru nauðsynlegar til að hægt sé að fylgjast bæði með breytingum á fæðuvali sem og inntöku næringarefna, annarra efna úr mat og fæðubótarefnum hverju sinni. Þetta er í fjórða sinn á 30 árum sem könnunin er lögð fyrir landsmenn.
Aðferðir: Um er að ræða tilviljunarkennt úrtak Íslendinga á aldrinum 18-80 ára. Tveimur aðferðum er beitt samhliða til að meta mataræði landsmanna. Annars vegar endurtekinni sólarhringsupprifjun á fæðuinntöku (2 dagar) og hins vegar tíðniaðferð þar sem spurningar eru lagðar fyrir um tíðni á neyslu einstakra fæðutegunda. Hér er greint frá niðurstöðum úr sólarhringsupprifjunum, gefið upp sem miðgildi neyslunnar og markgildi lægstu og hæstu 10 prósentanna í rannsóknarþýðinu.
Niðurstöður: Nú þegar hafa 495 Íslendingar tekið þátt og er hlutfall karla og kvenna svipað. Miðgildi neyslu á grænmeti og ávöxtum er 189g/dag (58g; 441g). Miðgildi kjötneyslu er 108g/dag (14g; 238g) en miðgildi neyslu á rauðu kjöti er 48g/dag (0g; 154g). Viðbættur sykur sem hlutfall af orku er um 8% (1%; 15%). Meðal þeirra sem neyta orkudrykkja á aldrinum 18-29 ára (42%) er miðgildi orkudrykkjaneyslu 165g/dag (125g; 586g).
Ályktanir: Frumniðurstöður landskönnunar benda til þess að mataræði Íslendinga sé enn nokkuð fjarri opinberum viðmiðum um heilsusamlegt mataræði og hefur orkudrykkjaneysla margfaldast í yngsta aldurshópnum. Niðurstöður sem þessar eru nauðsynlegar fyrir áframhaldandi stefnumótun og sýna hvar leggja þarf áherslur í heilsueflingar- og forvarnarstarfi. Áframhaldandi úrvinnsla á niðurstöðum mun gera rannsakendum kleift að meta bæði næringarástand og matvælatengt kolefnisspor Íslendinga.