Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Framboð og næringarefnainnihald tilbúinnar ungbarnafæðu á Íslandi

Aðalhöfundur: Birna Þórisdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Tinna Óðinsdóttir, Rannsóknastofa í næringarfræði, Heilbrigðisvísindastofnun, Háskóla Íslands og Landspítala. Inga Þórsdóttir, Heilbrigðisvísindastofnun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóla Íslands.

Inngangur: Matvælaiðnaðurinn útbýr mikið af vörum fyrir unga neytendur. Markmiðið var að lýsa framboði og næringarefnainnihaldi tilbúinnar ungbarnafæðu á Íslandi.

Aðferðir: Framboð var skoðað í verslunum, netverslunum og öðrum sölustöðum haustið 2016. Upplýsingar voru fengnar af umbúðum eða frá framleiðenda. Fyrir hverja vöru (N=248) voru upplýsingar færðar í gagnagrunn um: ráðlagðan lágmarksaldur neytenda, næringarefnainnihald og vöruflokk. Vöruflokkarnir voru: 1) ungbarnablöndur, 2) grautarduft, 3) tilbúnar vörur, með undirflokkana ávaxta- og/eða grænmetismauk, jógúrt, tilbúnir grautar, tilbúnar máltíðir með kjöti/fiski/pasta/grænmeti, 4) fingramatur, 5) annað.

Niðurstöður: Flestar vörur voru ætlaðar 4+ mánaða (74 vörur) og 6+ mánaða (85 vörur). Mest úrval var af tilbúnum vörum (60 vörur fyrir 4+ mánaða og 69 vörur fyrir 6+ mánaða), því næst ungbarnablöndum (15 vörur fyrir 4+ mánaða og 8 vörur fyrir 6+ mánaða) og grautardufti (9 vörur fyrir 4+ mánaða og 8 vörur fyrir 6+ mánaða). Næringarefnainnihald allra vara var innan gildandi reglugerða. Tilbúnar vörur höfðu lægsta meðalorkuinnihaldið, en innan þessa hóps höfðu grautar og jógúrt næstum tvöfalt orkuinnihald grænmetismauks. Tilbúnar máltíðir voru einnig orkumiklar og höfðu hærra prótein- og fituinnihald en aðrar tilbúnar vörur. Ítarlegar upplýsingar um næringarefnainnihald voru aðeins gefnar fyrir ungbarnablöndur og grautarduft.

Ályktanir: Haustið 2016 voru á markaði nærri 250 tegundir tilbúinnar ungbarnafæðu á Íslandi. Markaðurinn samanstóð fyrst og fremst af tilbúnum vörum, ungbarnablöndum og grautardufti. Mikilvægt er að fylgjast með vörum á markaði, neyslu ungra barna og næringarástandi. Gagnagrunnur um næringarefnainnihald tilbúinnar ungbarnafæðu á Íslandi nýtist til útreikninga á mataræði íslenskra ungbarna og var gerður fyrir rannsóknina Orkuskipti og vöxtur brjóstabarna

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.