Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Brjóstagjöf og mataræði ungbarna á Íslandi

Aðalhöfundur: Birna Þórisdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Félagsvísindasvið, Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Brynjólfur Gauti Jónsson, Tölfræðiráðgjöf Heilbrigðisvísindastofnun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóla Íslands. Inga Þórsdóttir, Heilbrigðisvísindastofnun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóla Íslands.

Inngangur:  Brjóstagjöf og mataræði eru meðal þeirra atriða sem skráð eru í ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar. Markmiðið er að lýsa brjóstagjöf og mataræði íslenskra ungbarna.

Aðferðir: Lýsandi tölfræði var notuð á gögn úr tveimur skýrslum úr sjúkraskrárkerfinu Sögu: „Framhald brjóstagjafar“ (tímabil 15.1.2009-16.6.2015, heildarfjöldi barna í útreikningum á brjóstagjöf n=21.068) og „Ábót barna eftir aldri“ (tímabil 20.9.2009-16.6.2015, heildarfjöldi barna í útreikningum á fæðu n=36.185).

Niðurstöður: Við eins vikna aldur fengu 97% barna brjóstamjólk og 82% nærðust eingöngu á brjóstamjólk. Við fjögurra, fimm og sex mánaða aldur fengu 79%, 76% og 70% barna brjóstamjólk og 48%, 35% og 18% barna voru eingöngu nærð á brjóstamjólk auk bætiefna (svo sem D-vítamíns). Hlutfall barna sem fékk D-vítamín jókst með aldri, frá 82% tveggja mánaða til 96% 10 mánaða barna. Við 10 mánaða aldur tók lýsi við af D-vítamíndropum sem algengasti D-vítamíngjafinn. Fjórðungur tveggja mánaða barna fékk ungbarnablöndu og þriðjungur 3-8 mánaða barna. Fjórðungur 8 mánaða barna drakk stoðmjólk og helmingur 12 mánaða barna. Við 10, 12 og 18 mánaða aldur fengu 11%, 20% og 40% barna kúamjólk. Grautar voru algengasta fyrsta fæðan (16% fjögurra mánaða, 47% fimm mánaða, 76% sex mánaða barna) ásamt ávöxtum/grænmeti (5% fjögurra mánaða, 26% fimm mánaða, 65% sex mánaða barna). 59% og 25% átta mánaða barna fengu kjöt og fisk en fá sex mánaða börn.

Ályktanir: Niðurstöðurnar samræmast vel öðrum gögnum um brjóstagjöf og mataræði íslenskra ungbarna. Rannsóknin er hluti „Icelandic Maternal and Child Health Study“ (ICE-MCH-Study) þar sem ætlunin er að rannsaka tengsl mataræðis ungbarna við vöxt og lyfjanotkun.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.