Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Ávinningur af tveggja ára fjölþættri heilsueflingu 65 ára og eldri Íslendinga

Aðalhöfundur: Janus Guðlaugsson
Vinnustaður eða stofnun: Janus heilsuefling

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Andri Janusson, Janus heilsuefling. Anna Sigríður Jóhannsdóttir, Janus heilsuefling. Anna Berglind Jónsdóttir, Janus heilsuefling. Bára Ólafsdóttir, Janus heilsuefling. Daði Janusson, Janus heilsuefling. Ingvi Guðmundsson, Janus heilsuefling. Thor Aspelund, Miðstöð lýðheilsuvídinda Háskóla Íslands. Þóroddur Einar Þórðarson, Janus heilsuefling.

Inngangur: Íbúar á Íslandi eru að eldast sem skapar ýmsar heilsutengdar áskoranir. Frá árinu 1980 jókst hlutfall íbúa 65 ára og eldri úr 10% í 14%. Gert er ráð fyrir að hlutfallið verði 24% árið 2050. Verði ekkert að gert má búast við aukningu í langvarandi sjúkdómum, aukinni eftirspurn eftir vinnuaflsfrekri langtímaþjónustu og fækkun fólks á vinnumarkaði. Fyrirtækið Janus heilsuefling hefur þróað heilsueflingarferli fyrir 65+ sem miðar að því að bæta hæfni þátttakenda, gera þeim kleift að takast lengur á við athafnir daglegs lífs, búa lengur í sjálfstæðri búsetu og starfa lengur á vinnumarkaði.

Efniviður og aðferðir: Þjálfunaríhlutun náði til 24 mánaða og var snið rannsóknar hentugleikaúrtak (N=848; konur 515; karlar 333) úr tveimur sveitarfélögum á Íslandi. Áhersla var lögð á daglega þolþjálfun, styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku og fræðsluerindi um heilsu- og næringartengd efni. Unnið var eftir leiðbeiningum helstu heilbrigðisstofnana í heimi. Mælingar voru framkvæmdar á 6 mánaða fresti yfir tímabilið. Við mælingar var notast við stöðluð próf á sviði öldrunar eins og sex mínútna göngupróf, styrktarpróf, SPPB-hreyfifærnipróf, mælingu á líkamssamsetningu, liðleikamælingu og heilsumat.

Niðurstöður: Niðurstöður bornar saman við upphafsmælingu færðust flestar til betri vegar að lokinni tveggja ára heilsueflingu. Blóðþrýstingur og líkamsþyngdarstuðull lækkaði, dagleg hreyfing, styrkur, vöðvaþol og gönguvegalengd jókst. Fitumassi minnkar en vöðvamassi kvenna stendur í stað en minnkar hjá körlum.

Ályktanir: Niðurstöður sýna mikilvægi fjölþættrar heilsueflingar fyrir eldri aldurshópa. Með slíkri markvissri heilsueflingu má koma í veg fyrir of snemmbæra hreyfiskerðingu, sinna athöfnum daglegs lífs lengur og bæta heilsutengd lífsgæði þrátt fyrir hækkandi aldur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.