Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Áhrif Stýrðrar kennslu Engelmanns og fimiþjálfunnar á lestrarfærni sérkennslunemenda í 4.-7. bekk

Aðalhöfundur: Harpa Óskarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, Háskóli Íslands.

Inngangur: Kennsluaðferðin Stýrð kennsla Engelmanns (Direct Instruction) er raunprófuð aðferð sem hefur reynst áhrifarík í enskumælandi löndum í áratugi. Aðferðin hefur reynst sérlega áhrifarík ef Fimiþjálfun (fluency training) er notuð samhliða henni. Aðferðirnar hafa ekki verið í almennri notkun hérlendis en endurteknar rannsóknir með einliðasniðum á áhrifum þeirra hafa sýnt framfarir nemenda.

Aðferð: Hópsamanburðarrannsókn var gerð á áhrifum aðferðanna á lestrarfærni nemenda sem þurftu sérkennslu í lestri í 4.-7. bekk grunnskóla þar sem sérkennarar lærðu og beittu aðferðunum í hefðbundnu skólaumhverfi yfir rúmlega 2 skólaár. Þátttakendur voru alls 16 nemendur í þremur sambærilegum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilraunahóp voru 8 nemendur í einum skóla sem fengu kennslu með aðferðunum og í samanburðarhóp voru 8 sambærilegir nemendur úr hinum tveim skólunum sem fengu hefðbundna sérkennslu. Staða allra nemenda í námsefninu var athuguð á 4 breytum í upphafi og lok hvers skólaárs og gerður samananburður á milli hópa og framfarir innan hópa voru skoðaðar.

Niðurstöður: Hóparnir höfðu sambærilega færni áður en kennsla hófst en í lok rannsóknar mældust meiri framfarir hjá tilraunahóp sem mældist marktækt hærri á öllum breytum sem athugaðar voru. Nemendur í tilraunahóp voru nákvæmari, lásu hraðar, gerðu færri villur og mældust hærri í lesskilning en samanburðarhópurinn eftir kennsluna.

Ályktun: Nemendur sem fengu kennslu með raunprófuðu aðferðunum í sérkennslu í lestri sýndu meiri framfarir og hafa meiri færni í lestri en nemendur í samanburðarhóp sem fengu hefðbundna sérkennslu í lestri.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.