Aðalhöfundur: Janus Guðlaugsson
Vinnustaður eða stofnun: Janus heilsuefling
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Andri Janusson, Janus heilsuefling. Bára Ólafsdóttir, Janus heilsuefling. Daði Janusson, Janus heilsuefling. Ingvi Guðmundsson (flytjandi), Janus heilsuefling. Thor Aspelund, Miðstöð lýðheilsuvísinda Háskóla Íslands. Þóroddur Einar Þórðarson, Janus heilsuefling.
Inngangur: Efnaskiptavilla (Metabolic Syndrome) er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi, en því fylgir aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2. Ástandið er tengt við kviðfitu og vaxandi mittismáli, háum þríglýseríðum í blóði, lágu HDL-kólesteróli, háum blóðþrýstingi og hækkuðu blóðsykurmagni. Ástand af þessum toga eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.
Markmið: Helsta markmið rannsóknar var að kanna áhrif sex mánaða fjölþættrar þjálfunar, með áherslu á þol- og styrktarþjálfun auk fræðsluerinda um næringu og heilsutengda þætti, á efnaskiptavillu. Auk þess var markmiðið að kanna áhrif þjálfunar á ýmsar afkastagetubreytur og hreyfigetu.
Aðferð: Snið rannsóknar var hentugleikaúrtak (n=154, 101 konur og 53 karlar) úr sveitarfélagi á Íslandi þar sem 73 þátttakendur voru greindir með efnaskiptavillu, 48 konur og 25 karlar. Þátttakendur fylgdu sex mánaða þjálfunaráætlun sem byggðist á daglegri þolþjálfun og styrktarþjálfun tvisvar í viku.
Niðurstöður: Af 73 þátttakendum sem voru skilgreindir með efnaskiptavillu voru 48 konur og 25 karlar. Að lokinni 6 mánaða þjálfun höfðu 12 konur af 48 (25%) og 5 karlar af 25 (20%) sem höfðu efnaskiptavillu losnað undan skilgreiningu á áhættu.
Ályktun: Bæði eldri karlar og konur bregðast svipað við fjölþættri þjálfun og geta á háum aldri haft veruleg áhrif á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma með markvissri heilsurækt tengda daglegri hreyfingu. Niðurstöður gefa til kynna jákvæð áhrif þjálfunar og fræðsluerinda um næringu og heilsu á efnaskiptavillu.