Aðalhöfundur: Ólöf Ásta Ólafsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands námsbraut í ljósmóðurfræði
Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Berglind Hálfdánsdóttir, Háskóli Íslands námsbraut í ljósmóðurfræði.
Inngangur: Árið 2017 fékkst styrkur úr Kennslumálasjóði til kaupa aðgang að sérhæfðu kennsluefni á vef Gynzone (gynzone.com) til að meta spöng, greina spangaráverka og þjálfa spangarsaum eftir fæðingu. Markmiðið var að bæta og samræma kennslu í ljósmóðurfræði um þetta efni byggt á gagnreyndri þekkingu.
Efniviður og aðferðir: Um tilraunaverkefni var að ræða. Áskrift að kennsluefni Gynzone hefur verið endurnýjað hvert ár og nú fá fyrir 30 einstaklingar aðgang. Það voru nýmæli að nota vefrænt kennsluefni en áður hafði efnið eingöngu verið kennt í fyrirlestraformi (power-point) með þjálfun í saumaskap í skólastofu.
Niðurstöður: Sjálfsnám nemenda og tækifæri nemenda til undirbúa sig fyrir æfingarkennslu hefur aukist. Kennarar leggja einnig fyrir verkefni á vefnum og nota vendikennslu í auknu mæli. Mikil ánægja er með kennsluefnið og nú er uppfærður kennsluvefur Gynzone orðinn hluti af kennslubúnaði á færnistofu fyrir klínískt nám í ljósmóðurfræði.
Ályktanir: Notkun kennslupakkans frá Gynzone er sannkallað umbótaverkefni í kennslu og hefur hjálpað til við að samræma kennslu um meðferð spangar á námstíma ljósmæðra og jafnframt þróað kennsluhætti í þverfræðilegu samhengi milli ljósmæðra og lækna á fæðingarvakt Landspítala.