Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Innleiðing virkra kennsluhátta í námskeiðinu Líftæknilyf haust 2020

Aðalhöfundur: Berglind Eva Benediktsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Inngangur: Námskeiðið er á MS stigi við Lyfjafræðideild HÍ og var stofnað til að mæta aukinni þörf á sérstöku námskeiði í líftæknilyfjum. Árið 2019 varð námskeiðið einnig skyldunámskeið í MS í iðnaðarlíftækni. Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum frá fjölda kennara með ólíkar áherslur og svo prófum. Því var lítið um virka kennsluhætti. Markmiðið með þessu verkefni var því að innleiða virka kennsluhætti til að dýpka skilning nemenda á efninu.

Aðferðir: Kennurum var fækkað úr níu í fimm, fyrirlestrum fækkað og vægi verkefna aukið á móti. Undirbúningsfyrirlestrar voru veittir sem grunnur í lyfjafræði. Verkefni voru skipulögð með endurgjöf og staðtímar skipulagðir til að veita yfirsýn yfir námsefni og skapa umræðu um verkefnin og möguleg vandamál þeim tengdum. Sérsniðin kennslukönnun var send til nemenda að námskeiði loknu (83% svarhlutfall).

Niðurstöður: Kennt var á 6 vikum með ákveðnum samkomutakmörkunum og sneri sumar athugasemdir að því að nemendur hafi ekki áttað sig á álaginu sem því fylgdi. 56% nemenda fannst verkefnin auka skilning á námsefninu og voru ánægðir með endurgjöf á verkefnið. Óánægja var með álag í hópavinnuverkefnunum sem voru mikið til unnin í gegnum fjarfundarbúnað og reyndist mörgum erfitt. Ánægja var með undirbúningsfyrirlestrana, hæfniviðmið þóttu endurspeglast vel í áherslum námskeiðsins og nemendur töldu staðtíma og valfrjáls krossapróf hjálpa.

Ályktanir: Umbylting kennsluhátta í þessu námskeiði gekk ekki áfallalaust fyrir sig og þar hjálpaði COVID og tímahrak ekki. Margir ljósir punktar sem komu fram og verður áfram unnið með verkefnin og annað námsmat í námskeiðinu til að betrumbæta ennfrekar fyrir haustið 2021.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.