Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Veirulíkar agnir sem ónæmisglæðir í ofnæmisvaka sérvirku sumarexemsbóluefni

Aðalhöfundur: Sara Björk Stefánsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Antonia Fettelschloss-Gabriel, University Hospital Zurich, Department of Dermatology, Schlieren, Switzerland, Faculty of Medicine, University of Zurich, Switzerland, Evax AG, Münchwilen, Switzerland. Eliane Marti, Vetsuisse Faculty, University of Berne, Berne, Switzerland. Hólmfríður Kristjánsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Ragna Brá Guðnadóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Sigríður Jónsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Vetsuisse Faculty, University of Berne, Berne, Switzerland. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Vilhjálmur Svansson, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Inngangur: Sumarexem er ofnæmissjúkdómur í hestum sem einkennist af framleiðslu á IgE mótefnum, exemi og kláða. Exemið orsakast af biti smámýs (Culicoides spp.) sem lifir ekki Íslandi og sjúkdóminn því ekki að finna hér. Tíðni sjúkdómsins er hærri í útfluttum íslenskum hestum en hjá íslenskum hestum fæddum erlendis. Við höfum áður sýnt að bólusetning í kjálkabarðseitla með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði framkallar Th1/T-stjórnfrumu miðað ónæmissvar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða glæðiaáhrif veirulíkra agna (VLA) í bólusetningu gegn sumarexemi í hestum.

Efniviður og aðferðir: Tólf heilbrigðir íslenskir hestar voru bólusettir undir húð þrisvar sinnum með fjögurra vikna millibili með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði, sex hestar með blöndu af alum/VLA og sex með blöndu af alum og monophosphoryl-lipid-A (MPLA). Mótefnasvörun var mæld í sermi með elísu, boðefnasvörun eftir in vitro örvun á hvítfrumum með fjölkúlnaljómunartækni.

Niðurstöður: Bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í báðum blöndum örvaði myndun á sértækum IgG1, IgG4/7 og IgG5 mótefnum. Mótefnin hindruðu að hluta bindingu IgE úr sumarexemshestum við ofnæmisvakana. Bólusetning með alum/MPLA gaf kröftugra mótefnasvar í öllum IgG undirflokkum og öflugri hindrun en þegar notað var alum/VLA. Marktækt meiri framleiðsla á IFN-g og IL-4 var hjá alum/MPLA hópnum eftir bólusetningu og nokkur hækkun á IL-10, en ekki var marktækur munur á boðefnasvörun fyrir og eftir bólusetningu með alum/VLA.

Ályktun: Ekki tókst að sýna fram á Th1-stýringu í kjölfar bólusetningar með ofnæmisvökum í alum/VLA blöndu og hún gaf veikara mótefnasvar en þegar notað var alum/MPLA. Mögulega þurfa veirulíkar agnir að vera fasttengdar ofnæmisvökunum til að fullnægjandi árangur náist.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.