Aðalhöfundur: Steinunn Kristbjörg Zophoníasdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Landspítali háskólasjúkrahús
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Helga Gottfreðsdóttir, Háskóli Íslands hjúkrunarfræðideild. Marianne Elisabeth Klinke, Háskóli Íslands hjúkrunarfræðideild.
Inngangur: Fjórðungur kvenna á breytingaskeiði upplifir veruleg einkenni sem hafa áhrif á daglegt líf og lífsgæði. Birtingarmynd einkenna er afar einstaklingsbundin og háð margþættu og flóknu samspili líffræðilegra, sálrænna og félagslegra þátta. Leitast var við a öðlast dýpri skilning á upplifun kvenna af breytingaskeiðinu í von um að greina þarfir kvenna og finna leiðir til að bæta lífsgæði þeirra.
Efniviður og aðferðir: Með tilgangsúrtaki voru valdir 6 viðmælendur á aldrinum 48-55 ára með reynslu af einkennum breytingaskeiðs sem höfðu haft áhrif á daglegt líf og lífsgæði. Gagna var aflað með óstöðluðum djúp-viðtölum á tímabilinu október 2019 til janúar 2020. Viðtalsgögnin voru þemagreind með notkun aðleiðslu og frásagnagreining notuð til að skrifa tvær lýsandi sögur.
Niðurstöður: Reynsla kvennanna og upplifun endurspeglast í yfirþemanu „Ég var ekki undir þessi ósköp búin“. Þrjú undirþemu voru greind: a) Þegar varnarskjöldurinn brestur og lífið umturnast. b) Að troða marvaðann og ná landi. c) Þörfin fyrir haldreipi í ólgusjó. Einkenni breytingaskeiðsins og víðtæk áhrif þeirra komu konunum í opna skjöldu. Þeim fannst þær óundirbúnar og mæta skilningsleysi og lýstu eftir opnari umræðu í samfélaginu og auknum stuðningi.
Ályktanir: Mynda þarf varnarskjöld um konur á breytingaskeiði og fjölskyldur þeirra. Það má gera með því að efla umræðu í samfélaginu, útbúa aðgengilegt fræðsluefni og bjóða upp á ráðgjöf innan grunnheilbrigðisþjónustunnar. Þannig má auka skilning og samkennd í garð kvenna sem upplifa erfið einkenni og bæta lífsgæði. Þar sem birtingarmynd einkenna er afar ólík og háð fjölmörgum ólíkum þáttum þurfa konur á breytingaskeiði einstaklingsmiðaða og heildræna ráðgjöf fagfólks.