Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Stöðlun málþroskaprófsins Málfærni eldri leikskólabarna (MELB)

Aðalhöfundur: Þóra Másdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Háskóli Íslands. Sigurgrímur Skúlason, Menntamálastofnun, Háskóli Íslands.

Inngangur: Málþroskaprófinu MELB er ætlað að meta málþroska barna á aldrinum fjögurra til sex ára. Þrjár forprófanir leiddu í ljós háan innri áreiðanleika og marktæka fylgni á milli stakra prófþátta. Stöðlun er langt á veg komin og hafa tæplega 800 börn verið prófuð á landsvísu.

Aðferðir: Fullstaðlað málþroskapróf verður að vera áreiðanlegt og réttmætt. Þar sem áreiðanleiki prófþátta MELB lá þegar fyrir var ákveðið að kanna réttmæti prófsins. Meistaranemar í talmeinafræði könnuðu m.a. hugsmíðaréttmæti prófsins. Það var athugað með því að bera frammistöðu barnanna á MELB saman við frammistöðu þeirra á nokkrum málþroskaprófunum (MUB, TOLD-2P og HLJÓM-2) og einnig á Íslenska þroskalistanum, ICS kvarðanum (sem metur skiljanleika tals hjá börnum) og málsýnum.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður voru þær að fylgni var jákvæð og marktæk milli MELB og þeirra prófa eða prófþátta sem mældu málþroska. Sem dæmi má nefna að há, jákvæð og marktæk fylgni var milli heildarskora á MELB og TOLD-2P sem og milli tjáningarhluta beggja prófa (r=0,84 í báðum tilvikum) og miðlungs há og marktæk milli málskilningshluta prófanna (r=0,60).

Ályktanir: Niðurstöður studdu að atriði á MELB meti annars vegar málskilning og hins vegar máltjáningu. Þær bentu til viðunandi samleitniréttmætis skyldra hugsmíða. Í öllum tilvikum studdu rannsóknirnar við réttmæti MELB sem próftækis er metur þá hugsmíð sem því er ætlað að meta, þ.e. málþroska. Niðurstöðurnar benda þannig til að MELB endurspegli vel málþroska barna á áðurnefndum aldri.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.