Aðalhöfundur: Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þjóðbjörg Guðjónsdóttir, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands.
Inngangur: Lítið er vitað um stoðkerfisverki hjá börnum með cerebral palsy (CP) á Íslandi en erlendar rannsóknir sýna að þeir eru algengir hjá hópnum. Markmið rannsóknarinnar er að kanna stoðkerfisverki og áhrif þeirra á daglegt líf og hegðun hjá hópi barna og unglinga á Íslandi með CP.
Aðferðafræði: Rafræn spurningakönnun var send til foreldra barna með CP. Börnin voru á aldrinum 8-17 ára og gátu gengið með eða án gönguhjálpartækis. Spurt var um tíðni og staðsetningu verkja. Einnig voru þrír spurningalistar frá Patient Reported Outcomes Measurement Information System (PROMIS®) lagðir fyrir þar sem spurt var um hve miklir verkir voru, áhrif verkja á hegðun og daglegar athafnir.
Niðurstöður: Svarhlutfall var 52% (n = 32). Foreldrar svöruðu fyrir hönd barna sinna nema sex börn svöruðu sjálf. Fimmtíu og þrjú prósent þátttakenda (n = 17) var með verki undanfarna sjö daga, flestir með verki sem voru ekki stöðugir. Verkir voru algengastir í báðum fótleggjum og í baki. Flestir þátttakendur voru með verki 4-5/10 á verkjakvarðaskala. Af þeim sex börnum sem svöruðu sjálf töldu fjögur verkina hvorki hafa áhrif á hegðun né daglega getu. Svör foreldra sýndu að ekki var tölfræðilegur marktækur munur á verkjahegðun miðað við viðmiðunarhóp bandarískra barna með verki. Áhrif verkja á daglegar athafnir var marktækt meiri hjá börnum með CP samanborið við viðmiðunarhóp bandarískra barna sem eru ófötluð.
Ályktanir: Helmingur þátttakenda var með stoðkerfisverki sem hafði áhrif á daglegar athafnir. Mikilvægt er að þessi hópur fái viðeigandi meðferð við sínum verkjum. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði.