Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Tíðni eðlilegra fæðinga eftir sameiningu fæðingardeilda Landspítala: Afturvirk ferilrannsókn á langtímaáhrifum fyrirbyggjandi aðgerða

Höfundar:
Ragnhildur Anna Ólafsdóttir, Sigurveig Ósk Pálsdóttir, Berglind Hálfdánsdóttir

Inngangur: Tíðni eðlilegra fæðinga jókst marktækt eftir sameiningu fæðingardeilda Landspítala árið 2014 og þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem gripið var til í aðdraganda hennar. Í framhaldinu vöknuðu spurningar um hvort jákvæð áhrif aðgerðanna væru langvarandi. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni eðlilegra fæðinga, fæðingarinngripa og fylgikvilla fæðinga á Landspítala á þremur tímabilum fyrir og eftir sameiningu fæðingardeilda, ásamt því að skoða hvort sá árangur sem náðist stuttu eftir sameiningu deilda væri enn til staðar að lengri tíma liðnum.
Efniviður og aðferðir: Rannsókn þessi er afturvirk ferilrannsókn á gögnum úr rafrænni fæðingarskrá. Þýðið var allar konur sem fæddu einbura á fæðingardeildum Landspítala á þremur tveggja ára tímabilum, 2012-2013, 2015-2016 og 2018-2019. Unnin var lýsandi tölfræði með kí-kvaðratprófum og t-prófum. Leiðrétt var fyrir áhrifabreytum með lógistískri aðhvarfsgreiningu á aðalútkomubreytum.
Niðurstöður: Tíðni eðlilegra fæðinga, mögulega með belgjarofi, og eðlilegra fæðinga án belgjarofs jókst marktækt á Landspítala á rannsóknartímabilinu þegar leiðrétt var fyrir áhrifabreytum. Marktækur munur var á tíðni fæðingarinngripa. Það dró úr tíðni belgjarofs og hríðarörvunar en tíðni spangarklippinga og utanbastdeyfinga jókst marktækt á tímabilinu 4-5 árum eftir sameiningu. Marktækt lægri tíðni var á innlögnum á vökudeild og lágum Apgar stigum 4-5 árum eftir sameiningu, borið saman við tímabilið fyrir sameiningu.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að hægt sé að standa vörð um eðlilegar fæðingar á þverfræðilegum fæðingardeildum með markvissum aðgerðum, en möguleiki er á að áhrif áhættuumhverfis séu þó farin að láta á sér kræla að nýju. Halda þarf markmiðum sameiningar á lofti og bregðast við neikvæðum áhrifum frá áhættuumhverfi.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.