Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Þjónustukönnun á stoðkerfismóttökum sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar

Höfundar:
Steinunn Olafsdottir, Auður Ólafsdóttir, Jóhanna Kristín Elfarsdóttir

Inngangur: Stoðkerfismóttökur sjúkraþjálfara hafa verið starfræktar á nokkrum heilsugæslum á Íslandi á síðastliðnum árum. Stoðkerfismóttakan er snemmtæk íhlutun þar sem sjúkraþjálfari veitir ráðleggingar einstaklinga sem glíma við stoðkerfisvandamál og getur þannig m.a. dregið úr veikindaleyfum og komið í veg fyrir að vandamál verði langvinn. Markmið þessarar rannsóknar voru að lýsa viðhorfi notenda stoðkerfismóttökunnar og hvort tengsl voru við biðtíma, ráðleggingar og eftirfylgni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og var rafræn þjónustukönnun send til 1309 einstaklinga sem fengu þjónustu á stoðkerfismóttöku sjúkraþjálfara á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, á tímabilinu 1.september 2020 til 31.ágúst 2021. Könnunin innihélt 12 spurningar þar sem m.a. var spurt um viðhorf notenda til stoðkerfismóttökunnar, biðtíma, þekkingu sjúkraþjálfara og eftirfylgni. Svarhlutfall var 36%.

Niðurstöður: Rúmlega 88% þátttakenda voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna. Ekki fannst marktækur munur á viðhorfi eftir því hversu lengi notendur biðu eftir þjónustu (p=0,238) en marktækur munur var á ánægju eftir því hvernig ráðleggingar reyndust (p<0.001) og það var marktækt jákvæðara viðhorf hjá þeim sem fengu eftirfylgni (p<0,001). Tæplega 84% þátttakenda fannst sjúkraþjálfarinn hafa mjög mikla eða fremur mikla þekkingu á vandamáli notanda. Ályktanir: Stoðkerfismóttakan getur orðið mikilvægur liður í að flýta því að einstaklingar fái viðeigandi úrræði innan heilsugæslunnar og létt á álagi á heimilislækna. Nauðsynlegt að samræma verklag á milli heilsugæslustöðva og mikilvægt að allir notendur fái eftirfylgd. Þannig má gera ráð fyrir enn meiri ánægju notenda innan stoðkerfismóttöku sjúkraþjálfara á heilsugæslum.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.