Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Tannheilsa á meðgöngu: Áhrif meðgöngu á tannheilsu móður

Höfundar:
Ásta Lind Hannesdóttir Gränz, Aðalheiður Svana Sigurðardóttir, Ásthildur Þóra Reynisdóttir

INNGANGUR
Rannsóknir sýna að tengsl eru milli meðgöngu og munnheilsu móður. Markmið rannsóknarinnar var að kanna almenna þekkingu barnshafandi kvenna á Íslandi á mögulegum áhrifum meðgöngu á tannheilsu og á mögulegum kvillum sem kunna að koma upp eða aukast á meðan á meðgöngu stendur.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Í rannsókninni var notast við megindlega aðferðafræði þar sem rafræn spurningakönnun var send út og notað snjóboltaúrtak til að ná til þátttakenda. Könnuninni var dreift á Facebook bæði í opna og lokaða hópa. Notast var við lýsandi tölfræði til að birta niðurstöður.
NIÐURSTÖÐUR
Alls tóku 300 barnshafandi konur þátt í rannsókninni. Ríflega helmingur 56,0% (n = 168) þeirra var 30 ára og yngri og meiri hluti 61,0% (n = 183) var með háskólamenntun. Út frá meðaleinkunn á þekkingu þátttakenda á tannholdsbólgu, reyndist meirihluti 62,5% þekkja einkenni tannholdsbólgu og 61,5% þekkja atriði sem minnka áhættu á tannholdsbólgu. Hins vegar þekkir minnihluti 42,7% orsakir tannskemmda og 37,2% tannholdsbólgu. Meirihluti þátttakenda, 76,7%, telur sig ekki hafa fengið fræðslu um tannheilsu á meðgöngu og yfirgnæfandi meirihluti, 93,0%, telur þörf á frekari fræðslu. Flestir (80,4%) myndu vilja fá fræðslu um tengsl meðgöngu og munnkvilla í Mæðravernd.
ÁLYKTANIR
Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að þekking barnshafandi kvenna á Íslandi á áhrifum meðgöngu á tannheilsu sé ábótavant. Fáar telja sig hafa fengið fræðslu um efnið og mikill meirihluti er sammála því að þörf sé á betri fræðslu um tannheilsu á meðgöngu til barnshafandi kvenna.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.