Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Nýgengi skorpulifrar á Íslandi 2016–2022: áhrif af meðferð gegn lifrarbólgu C

Einar Stefán Björnsson, Halldór Alexander Haraldsson, Magnús Gottfreðsson, Bjarki Leó Snorrason and Sigurður Ólafsson

Inngangur
Nýgengi á skorpulifur var lágt seint á 20. öld á Íslandi með 3 tilfelli per 100 000 íbúa árlega en hefur aukist síðustu 2 áratugi vegna aukinnar áfengisnotkunar, offitu og lifrarbólgu C og var u þ b 10 tilfelli per 100 000 árið 2015. Árið 2016 hófst meðferðarátak gegn lifrarbólgu C, TraP HepC á Íslandi þar sem boðið var upp á lyfjameðferð gegn HCV. Markmið rannsóknarinnar var að fylgjast áfram með þróun skorpulifrar á Íslandi og hugsanlegri breytingu á áhættuþáttum síðustu árin.

Efniviður og aðferðir
Allir sjúklingar á Íslandi með skorpulifrargreiningu 2016–2022 voru með. Upplýsingum var safnað um kyn, aldur við greiningu, áhættuþætti, alvarleika stigun við greiningu (MELD), orsakir, lifrarkrabbamein, lifun, og dánarorsakir.

Niðurstöður
Alls greindust 342 einstaklingar með skorpulifur, 223 (65%) karlar, meðalaldur 62 ár. Að meðaltali var nýgengi á 100 000 íbúa á ári 13,8. Algengasta orsökin var áfengisneysla ein og sér (40%), MASLD (metabolic dysfunction-associated steatotic liver disease) (28%) og lifrarbólga C með eða án áfengis (15%). Hlutfall annað hvort áfengis eða MASLD sem orsök jókst úr 53% í 68% af heildar orsökum skorpulifrar. Fjöldi HCV skorpulifrartilfella var há 2016 (n=23) líklega vegna leitar að tilfellum vegna TraP HepC en minnkaði verulega á rannsóknartímabilinu (p<0.001), í n=1 (2021) og n=2 (2022). Fimm ára lifun var 55% (95% CI 48.9-62.3%). Algengustu dánarorsakirnar voru lifrarfrumukrabbamein (26%) og lifrarbilun (25%). Ályktanir Nýgengi skorpulifrar hefur margfaldast undanfarna áratugi. Áfengi og MASLD valda 2/3 af öllum tilfellum. Meðferðarátak gegn HCV hefur valdið >90% fækkun á skorpulifrartilfellum vegna HCV.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.