Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Notkun teymisnáms (e. Team-based learning, TBL) í lyfjafræði og upplifun nemenda af því

Höfundar:
Berglind Eva Benediktsdóttir, Helga Helgadóttir, Páll Þór Ingvarsson

Teymisnámi (TBL) byggir á því að virkja nemendur í námi. Virkt nám leiðir nemendur dýpra í námsefnið og gefur þeim tækifæri til að æfa sig í að nota innihald námsefnisins til að leysa verkefni. TBL var notað í fyrsta skipti í lyfjafræði haustið 2022 og var markmið rannsóknarinnar að kanna hvernig TBL reyndist í námskeiðunum og hver upplifun nemenda væri af fyrirkomulaginu.
TBL var sett upp í þremur námskeiðum í Lyfjafræðideild. Rafræn spurningakönnun send á nemendur í lok þessara námskeiða og var þátttaka valfrjáls og nafnlaus. Svarhlutfall var 65% í Aðgengisfræði, 76% í Nanótækni og 33% í Líftæknilyfjum.
Nemendur í öllum námskeiðunum voru sammála eða mjög sammála (100%) því að þeir vörðu tíma í að undirbúa sig og fannst slíkt nauðsynlegt til að standa sig vel í TBL. Jafnframt var stærsti hluti nemenda sammála eða mjög sammála að þeirra framlag skilaði sér inn í TBL hópavinnuna (92-100%), þeir upplifðu sig ábyrga fyrir því að skila fullnægjandi verkefni (77-92%) og voru stoltir af því sem þeir lögðu til verkefnanna (85-100%). Breiddin var meiri þegar var spurt um hversu vel þau teldu sig geta munað það námsefni sem var unnið með í TBL (54-100% sammála eða mjög sammála), en 69-100% nemenda voru sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að TBL hafi hjálpað þeim að skilja og tileinka sér námsefnið.
Nemendur voru jákvæðir í garð TBL og það stuðlaði að virku námi þeirra. Eftirfylgd með þessu námsfyrirkomulagi er mikilvæg til að fá betri yfirsýn yfir upplifun nemenda á TBL til lengri tíma.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.