Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Neysla 6-24 mánaða barna á tilbúnum barnamat

Birna Þórisdóttir, Tinna Óðinsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir and Inga Þórsdóttir

Inngangur: Hérlendis fást ~270 tegundir af tilbúnum barnamat. Íslenskar ráðleggingar mæla með ungbarnagrautum fyrir 6-12 mánaða börn, mjólkurblöndu ef þarf, krukkumat einungis í hófi og mat úr pokum/skvísum og fingramat eingöngu stöku sinnum. Markmiðið var að rannsaka neyslu á barnamat meðal 6–24 mánaða barna úr tveimur framsæjum ferilrannsóknum, Iceage2 og ICEGUT.
Efniviður/aðferðir: Fæðuneysla var skráð í þrjá daga þegar börnin voru 6 mánaða (n=51), 9 mánaða (n=103), 12 mánaða (n=253) og 24 mánaða (n=124). Neysla var reiknuð sem g/d og hlutfall af heildarorku (E%).
Niðurstöður: Flest börn fengu barnamat meðan fæðuneyslan var skráð, 92% 6 mánaða barna, 100% 9 mánaða, 92% 12 mánaða, 49% 24 mánaða. Algengast var að börn fengju ungbarnagrauta við 6 mánaða aldur (80% barna), mat í skvísum 9 og 12 mánaða (85% og 77% barna) og fingramat 24 mánaða (31% barna). Barnamatur veitti að meðaltali um fjórðung orkunnar við 6, 9 og 12 mánaða aldur (26E%, 30E%, 23E%), 10% barnanna fengu yfir helming orkunnar úr barnamat. Orka úr fæðu annarri en móðurmjólk og barnamat jókst með hækkandi aldri, úr að meðaltali 13E% við 6 mánaða aldur í 47E%, 71E% og 97E% við 9, 12 og 24 mánaða aldur.
Ályktanir: Tilbúinn barnamatur er stór hluti af mataræði 6-12 mánaða barna á Íslandi. Í ljósi breytilegra gæða varanna á markaði þarf að huga vel að tegund og magni í samhengi við heildarmataræði barnsins. Mikil neysla á tilbúnum barnamat getur valdið því að barn fái minni þjálfun í að neyta fjölbreyttar fæðu með ólíku bragði, lykt og áferð.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.