Bjarki Leó Snorrason, Siguður Sölvi Sigurðsson and Einar Stefán Björnsson
Inngangur: Nýgengi skorpulifrar í íslensku þýði hefur sögulega verið lágt en hefur þó verið að aukast síðustu tvo áratugi. Frá því að fyrsta lifrarígræðslan var gerð árið 1984 til 2012 var helsta undirliggjandi orsök lifrarígræðslu frumkomin gallrásarbólga, sem var undir-liggjandi ástæða í um 20% tilfella(1).
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða þróun ábendinga fyrir lifrarígræðslu á seinasta áratug ásamt því að leggja mat á nýgengi lifrarígræðsla
Efni og aðferðir: Í þessari afturskyggnu heilþýðisrannsókn, söfnuðum við gögnum um ábendingar fyrir lifrarígræslum í fullorðnum einstaklingum á árunum 2013-2023. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám og niðurstöður bornar saman við gögn úr eldri rannsókn á sama viðfangsefni
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 52 lifrarígræðslur (4 endurígræðslur) framkvæmdar á 48 sjúklingum, þar af 30 (63%) karlmönnum. Meðalaldur þýðisins var 54 ár. Meðalnýgengi lifrarígræðslna á tímabilinu var 13.1/1.000.000/ár, sem markaði aukningu frá tímabilinu 2007-2012 (8.9/1.000.000/ár). Aðal ábendingar lifrarígræðslu voru skorpulifur (60,4%), skorpulifur með lifrarfrumukrabbameini (23%), bráð lifrarbilun (4,2%) ásamt samansafni annarra ábendinga (12,5%). Leiðandi orsök lifrarígræðslu reyndist vera fitulifur tengdur efnaskiptavillu (MASLD)(23%), með nýgengi 3.03/1.000.000/ár samanborið við tímabilið 1984-2012 (0.12/1.000.000/ár) og markar 25-falda aukningu. Önnur algengasta orsökin reyndist áfengistengd skorpulifur (21%) og aðrar orsakir samanstóðu af PBC (8.3%), frumkominni trefjunargallgangabólga (8.3%), lifrarbólga C (8.3%), lifrarskaða af völdum lyfja (4.2%) og samansafni annarra orsaka (27%).
Ályktanir: Marktæk aukning hefur orðið á fjölda lifrarígræðsla á síðasta áratug, drifið áfram af aukningu í ígræðslum tengdum efnaskiptavillu og áfengi. Niðurstöður okkar kalla á nánara eftirlit með þeim sem eiga í hættu á að þurfa ígræðslu.