Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Kortlagning alþjóðlegrar notkunar mælitækis sem metur gæði hjúkrunar: Fræðileg samantekt með kögunarsniði

Helga Bragadóttir and Ingibjörg Hjaltadóttir

Inngangur: Hjúkrun skiptir sköpum fyrir öryggi sjúklinga og brýnt að geta með áreiðanlegum og réttmætum hætti metið gæði hennar. Að sama skapi er mikilvægt að geta greint gæði og gæðavísa hjúkrunar þvert á lönd og menningarsvæði. Mat á óframkvæmdri hjúkrun er ein leið til þess að meta gæði hjúkrunar, en óframkvæmd hjúkrun er í raun atvik vegna vanrækslu þar sem nauðsynlegri hjúkrun er seinkað eða sleppt. Tilgangur rannsóknarinnar var að kortleggja alþjóðlega notkun mælitækisins MISSCARE Survey, sem upprunnið er í Bandaríkjunum.
Efniviður: Notuð var fræðileg samantekt með kögunarsniði þar sem efniviður rannsóknar voru rannsóknir sem höfðu notað MISSCARE Survey spurningalistann utan Bandaríkjanna og eða á öðrum tungumálum en ensku. Inntökuskilyrði voru notkun MISSCARE Survey spurningalistans í öðru landi en Bandaríkjunum og eða á öðru tungumáli en ensku, að þátttakendur hefðu verið starfsfólk hjúkrunar á vefrænum deildum sjúkrahúsa, og að birtingin væri á ensku. Leitað var í Cinahl, Medline, ProQuest, PubMed og Web of Science, auk leita með öðrum hætti.
Niðurstöður: Leit skilaði samtals 74 heimildum og uppfylltu 36 þeirra inntökuskilyrði. Rannsóknirnar komu frá 30 löndum öðrum en Bandaríkjunum og hafði spurningalistinn verið þýddur á 17 tungumál. Í flestum rannsóknanna var spurningalistinn notaður óbreyttur hvað fjölda og eðli spurninga um óframkvæmda hjúkrun varðar og reyndist áreiðanlegur og réttmætur.
Ályktanir: Vel hannaðir spurningalistar sem meta gæði heilbrigðisþjónustu gefa tækifæri til alþjóðlegs samanburðar og rannsókna þvert á tungumál og menningarsvæði. Slík mælitæki eru afar dýrmæt og mikilvægt að varpa ljósi á útbreiðslu notkunar þeirra.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.