Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Geislaálag íslenskra flugáhafna – fræðsla, þekking og geislun á meðgöngu

Höfundar:
Jónína Guðjónsdóttir, María Bára Arnarsdóttir, Nellý Pétursdóttir

Inngangur
Flugáhafnir verða fyrir aukinni náttúrulegri geislun (geimgeislun) við vinnu sína og eru þess vegna geislastarfsmenn. Allir geislastarfsmenn eiga að fá lágmarks fræðslu um jónandi geislun og þar fyrir utan á að fræða konur á barneignaaldri sérstaklega um þær reglur sem gilda fyrir barnshafandi geislastarfsmenn.
Efniviður
Þessi rannsókn var gerð í samstarfi við Geislavarnir ríkisins en þar er haldin skrá yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits með geislaálagi geislastarfsmanna. Fyrir lágu gögn um einstaklingsbundið geislaálag flugáhafnarmeðlima flugfélaga með íslenskt starfsleyfi fyrir árin 2014 – 2020. Í febrúar og mars árið 2022 var 1462 starfandi flugáhafnarmeðlimum hjá þeim þrem flugfélögunum sem þá voru með íslenskt starfsleyfi sent boð, í samvinnu við flugfélögin, um að svara veflægum spurningalista um geislaálag, þekkingu og fræðslu.
Niðurstöður
Meðalfjöldi flugáhafnarmeðlima með skráð geislaálag árin 2014 – 2020 var 2765 og meðaltalsgeislaálag var frá 0,85 mSv/ár (2020) til 2,65 mSv/ár (2018). Hæsta geislaálag einstaklings var 6,9 mSv/ár (2018). Marktæk jákvæð fylgni var milli geislaálags og flugtíma. Spurningakönnunin leiddi í ljós að flugáhafnarmeðlimir voru ekki vel upplýstir um eigið geislaálag. Af 642 svörum sagðist meirihluti (63%) ekki hafa fengið fræðslu um geislun eða geislavarnir áður en starf hófst. Tæp 90% sögðust ekki vita nóg um geislun og geislavarnir og fjórðungur svarenda skrifaði sérstaklega ósk um meiri fræðslu. Þó er meirihluti (72%) meðvitaður um að sérstakar reglur gilda fyrir barnshafandi áhafnarmeðlimi og flestir segjast fylgja þeim reglum.
Ályktanir
Meðalgeislaálag flugáhafna íslenskra flugfélaga er sambærilegt við alþjóðlegt meðaltal (2,7 mSv/ár) en fræðslu um geislun og geislavarnir er verulega ábótavant.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.