Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Fyrirbyggjandi bólusetning gegn sumarexemi minnkar næmi gegn ofnæmisvökunum í ofnæmisprófi

Höfundar:
Sigridur Jonsdottir, Sara Björk Stefánsdóttir, Jasmin Birras, Anja Ziegler, Vilhjálmur Svansson, Sigurbjörg Þorsteinsdottir, Eliane Marti

Inngangur: Sumarexem (SE) er húðofnæmi í hestum orsakað af IgE miðluðum viðbrögðum gegn biti Culicoides-spp sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er allt að 50% í útfluttum hestum. Aðalofnæmisvakarnir hafa verið kortlagðir og framleiddir. Til að kanna áhrif fyrirbyggjandi ónæmismeðferðar (AIT) voru 27 hestar á Íslandi bólusettir með níu ofnæmisvökum. Markmið verkefnisins var að bera saman næmi bólusettra og óbólusettra hesta.
Efni og aðferðir: Eftir þrjú ár í Sviss voru 16 af bólusettu hestunum (AIT-SE) sem sýndu einkenni og 7 heilbrigðir hestar (AIT-H) prófaðir í basafrumuvirkniprófi með átta af níu ofnæmisvökum úr bóluefninu og einum ekki úr því. Samanburðarhópar voru; 4 sumarexemshestar (K-SE) og sex heilbrigðir (K-H) fluttir inn á sama tíma, 25 SE-hestar (SE) og 15 heilbrigðir (H) staðsettir í Sviss >5 ár. Hvítfrumur voru örvaðar með ofnæmisvökum, sulfidoleukotriene (sLT) mælt með ELISA.
Niðurstöður: Marktækt minni sLT-losun var hjá AIT-SE hópnum samanborið við SE hópinn eftir örvun með 7 af 8 ofnæmisvökum, K-SE hópurinn var með svipaða losun og SE. sLT-losunin var ámóta hjá hópunum eftir örvun með ofnæmisvakanum sem var ekki í bóluefninu. Heilbrigðu hóparnir sýndu ekki marktækan mun. Þegar SE-hópurinn var borinn saman við H-hestana innan hvers hóps, þá voru K-SE með marktækt hærri losun en K-H gegn 7 af 9 ofnæmisvökum, SE-hestarnir gegn 8 af 9 vökum en AIT-SE-hestarnir gegn 2 ofnæmisvökum og vakanum sem var ekki í bóluefninu.
Ályktanir: Hestar sem fengu fyrirbyggjandi bóluefni gegn sumarexemi sýndu minna næmi í basafrumuvirkniprófi eftir örvun með ofnæmisvökunum úr bóluefninu, hins vegar lækkaði tíðni sumarexems ekki.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.