Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

,,Fólk kemur eftir að hafa lent í árekstri fyrir korteri“: Vaxandi álag á lækna vegna vottorðagerðar sökum umferðarslysa

Höfundar:
Sunna Gestsdóttir, Kári Sigurðsson, Héðinn Sigurðsson

Inngangur: Langvarandi skortur er á heilsugæslulæknum á Íslandi og álag vaxandi. Ýmis vottorðagerð hefur aukist á kostnað samskipta við sjúklinga. Mat á skaðabótum eftir umferðarslys grundvallast á læknisvottorði um líkamstjón og bataferli. Íslensk skaðabótalöggjöf byggir á danskri fyrirmynd. Ólíkt þeirri dönsku þar sem engar bætur fást fyrir örorku sem metin er minni en 15% þá er ekkert lágmark á örorkuprósentu í íslensku skaðabótalöggjöfinni sem útleysir bótafé. Markmið rannsóknarinnar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu heilsugæslulækna af vottorðagerð vegna umferðarslysa.
Aðferð: Um er að ræða eigindlega rannsókn með tilgangsúrtaki. Tekin voru viðtöl við átta heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Notast var við hálfstaðlaðan viðtalsramma og tók hvert viðtal um 40-60 mínútur.
Niðurstöður: Eftir greiningu á viðtölum birtust þrjú meginþemu auk undirþema: 1) Aukin vinna við vottorðagerð og undirþemun: fjölgun vottorða, samanburður við vinnu í öðrum löndum og vaxandi ágengni lögfræðinga; 2) Markaðssetning slysabóta og undirþemun: læknisheimsóknir vegna umferðarslysa, meðvitund um tryggingavernd og læknisheimsóknir falla niður eftir útgreiðslu bóta og 3) Áskoranir heilsugæslulækna og undirþemun: mat á huglægum einkennum, spilað á kerfið og meðferðarsamband læknis og skjólstæðings.
Ályktun: Mikill kostnaður er bundinn örorkumatsferli sem hefur aukist þrátt fyrir fækkun umferðarslysa. Álag á lækna tengist ekki aðeins fjölgun vottorða heldur einnig ágengni lögfræðinga sem kalla eftir vottorðunum og öllum upplýsingum úr sjúkraskrám sem ekki er ljóst hvernig þeir síðan varðveita. Ófullkomin íslensk skaðabótalöggjöf gæti haft ill áhrif á meðferðarsamband læknis og skjólstæðings, ýtt undir kulnun og dregið úr nýliðun í stétt heimilislækna. Breytingar á núgildandi löggjöf er í höndum Alþingis.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.