Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Flugeldaslys á höfuðborgarsvæðinu 2010-2022 – Komur á bráðamóttöku Landspítala vegna flugelda á 12 ára tímabili

Höfundar:
Björn Vilhelm Ólafsson, Hjalti Már Björnsson

Inngangur
Flugeldanotkun almennings er mikil á Íslandi og hefur henni fylgt nokkur slysatíðni. Engar fyrri heildstæðar rannsóknir liggja fyrir á flugeldaslysum hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um umfang, orsakir og afleiðingar flugeldaslysa á höfuðborgarsvæðinu.

Efniviður og aðferðir
Gerð var textaleit í sjúkraskrám til að finna komur á bráðamóttöku Landspítala á tímabilinu desember 2010 til janúar 2022 af völdum flugeldaslysa. Voru sjúkraskrár yfirfarnar til að finna nánari lýsingar á tildrögum slyss og áverkum.

Niðurstöður
Á rannsóknartímabilinu leituðu 248 manns til Landspítala vegna flugeldaslysa, þar af 181 (73%) karl. Aldursbilið var frá 9 mánaða til 79 ára, alls 114 börn, þar af 12 á leikskólaaldri. Til viðbótar leituðu 54 á bráðamóttöku vegna hliðarslysa. Alls voru 96 (39%) slysanna rakin til gallaðra flugelda. Rakettur ollu flestum slysum, eða 56 (23%), þar á eftir skottertur 43 (17%) svo blys 32 (13%). Flugeldategund var óskráð í 62 (25%) tilfellum. Brunaáverka hlutu 157 einstaklingar, þar af 104 á höndum. Augnáverkar fundust hjá 67 einstaklingum og 97 einstaklingar hlutu opin sár. Inn á Landspítala lögðust 22 sjúklingar sem lágu samtals í 91 dag. Enginn lést en að minnsta kosti 13 hlutu varanlegt heilsutjón vegna flugeldaáverka.

Ályktanir
Síðasta áratug hefur 21 einstaklingur slasast og einn hlotið varanlegt heilsutjón að meðaltali vegna flugeldanotkunar á höfuðborgarsvæðinu ár hvert sé miðað við heil ár. Alls eru 73% slasaðra karlkyns, börn eru helmingur slasaðra og eitt barn á leikskólaaldri slasast venjulega um hver áramót. Efla þarf forvarnir gegn flugeldaslysum og íhuga að setja strangari reglur um notkun þeirra.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.