Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Bólusetningarhik á meðal Íslendinga í kjölfar Covid-19 faraldursins

Kristjana Hrönn Ásbjörnsdóttir, Arna Hauksdóttir, Edda Björk Þórðardóttir, Gunnar Tómasson, Jóhanna Jakobsdóttir, Thor Aspelund and Unnur Valdimarsdóttir

Inngangur: Bólusetningarhik nær yfir bæði beina andstöðu og efasemdir sem geta tafið bólusetningu, og jókst víða í Covid-19 faraldrinum. Kenningar eru um að Covid-19 bólusetningarhik auki bólusetningarhik almennt. Á Íslandi er Covid-19 bólusetningahlutfall 5 ára og eldri 82,0%, en hlutfall barna áberandi lægra. Þessi rannsókn kannaði algengi bólusetningarhiks og viðhorf til Covid-19 bólusetninga á Íslandi.

Aðferðir: Gagnasöfnun „Líðan þjóðar á tímum Covid-19“ 2023 innihélt spurningalista um bólusetningarhik. Spurt var um eigin Covid-19 bólusetningu, Covid-19 bólusetningu barna, og bólusetningar barna almennt. Bólusetningarhik var skilgreint út frá bólusetningarstöðu og viðhorfi fyrir fyrstu sprautu. Algengihlutföll, leiðrétt fyrir aldri og kyni (aPR), voru reiknuð með Poisson aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: 11.564 tóku þátt, 69,7% konur. 98,2% voru fullbólusett, en 8,1% hikuðu „nokkuð“, „mikið“ eða „mjög mikið“ fyrir bólusetningu. Algengi bólusetningarhiks var hærra á meðal kvenna og fólks undir fertugu. 2.440 þátttakendur áttu börn á aldrinum 5-17 ára, þar af áttu 20,9% a.m.k. eitt Covid-19 óbólusett barn og 39,2% lýstu bólusetningarhiki, samanborið við 5,5% fyrir aðrar barnabólusetningar. Þó voru marktækt færri foreldrar en aðrir alfarið á móti Covid-19 bólusetningum barna (17,0% vs. 28,1%, aPR=0,62(0,56-0,68)). Covid-19 bólusetningarhik vegna barns tengdist ekki háskólamenntun (aPR=1,00(0,89-1,13)), en var algengara á meðal þátttakenda sem notuðu f.o.f. óáreiðanlegar upplýsingaveitur um Covid-19 (t.d. samfélagsmiðla/YouTube) (aPR=1,51(1,17-1,95)).

Ályktanir: Áhyggjuefni er að þrátt fyrir hátt bólusetningahlutfall í rannsóknarþýðinu var hik vegna Covid-19 bólusetningar barna algengt, og fjórðungur alfarið mótfallinn henni. Upplýsingaóreiða í Covid-19 faraldrinum kann að hafa stuðlað að bólusetningarhiki. Áríðandi er að fylgjast með hvort Covid-19 bólusetningarhik eykur hik vegna annarra barnabólusetninga á næstu árum.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.