Höfundar:
Sólveig Rán Stefánsdóttir, Níels Árni Árnason, Reynir Arngrímsson, Þorbjörn Jónsson, Sigurborg Matthíasdóttir, Ragna Landrö, Erna Knútsdóttir, Sveinn Guðmundsson, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson
Inngangur:
Blóðhlutagjafir eru notaðar í hinum ýmsu læknismeðferðum. Mikilvægt er að fylgjast með notkun blóðhluta til að tryggja blóðhlutabirgðir.
Markmið:
Lýsa og greina blóðhlutanotkun á Landspítalanum á árunum 2012 – 2022 m.t.t. breytinga á íbúafjölda landsins.
Aðferðir:
Upplýsingum um blóðinngjafir á Landspítalnum 2012 – 2022 var safnað í gegnum gagnagrunn Blóðbankans, ProSang Statistics. Upplýsingarnar voru flokkaðar eftir gerð inngefinna blóðhluta. Teknar voru saman tölur yfir fólksfjölda á landinu frá Hagstofu Íslands. Tölur yfir blóðinngjafir voru aldursstaðlaðar m.t.t. fólksfjölda í landinu og staðlaðs þýði með beinni aðferð. Þá var gerð breytipunktagreining í RStudio.
Niðurstöður:
Aldursstaðlað inngjafahlutfall rauðkornaþykknis drógst saman um 36% á tímabilinu [39,83 → 25,44 einingar/1000 íbúa], plasma um 66% [11,37 → 3,91 einingar/1000 íbúa], og blóðflagna um 1% [6,95 → 6,89 einingar/1000 íbúa]. Frá 2020 hefur hlutfallið fyrir rauðkornaþykkni aukist um 9% [23,27 → 25,44 einingar/1000 íbúa], fyrir plasma um 16% [3,37 → 3,91einingar/1000 íbúa] og fyrir blóðflögur um 43% [4,8 → 6,89 einingar/1000 íbúa]. Í öllum þessum tilfellum greindist skarpur breytipunktur árið 2021 þar sem samdrátturinn hætti og marktækar aukningar varð vart. p-gildi < 0,05 í öllum tilfellum (Student’s t-test).
Ályktun:
Mikið dróg úr notkun blóðhluta frá 2012 til 2020 þegar skarpur viðsnúningur varð og notkunin jókst. Blóðbankinn hefur þurft að bregðast við aukinni notkun með aukinni söfnun, sérstaklega á blóðflögum. Frá 2020 hefur framleiðsla á blóðflögum aukist um 48%. Með öldrun þjóðarinnar og auknum fólksfjölda mun blóðhlutanotkun líklegast aukast á komandi árum.